144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði vænst þess að hv. þm. Birgir Ármannsson mundi nota tækifærið og taka undir árnaðaróskir mínar til Framsóknarflokksins fyrir að vera svo ern sem raun ber vitni þrátt fyrir háan aldur, en hann hefur kannski tækifæri til þess í seinni orðaskiptum sínum við mig. Ég vænti þess að minnsta kosti að samskipti flokkanna séu ekki komin á það stig að menn haldi aftur af sér á slíkum stundum.

Hv. þingmaður taldi að þingreyndur maður eins og ég gæti ekki vænst þess á síðasta degi þingsins að svona tillaga yrði samþykkt. Ég hef verið hér bráðum í aldarfjórðung og það hefur ekki dregið úr trú minni á hið góða í manninum og ekki minni lífsmeðfæddu bjartsýni. Ég ætla að trúa hv. þingmanni fyrir því að ég vænti þess að þótt ekki sé nema til þess að halda upp á afmælisdag Framsóknarflokksins þá muni hann leggja sitt lóð, sem getur verið allþungt, á vogarskálar, ef mér leyfist að orða þannig, sigursælla lykta þessarar tillögu. Ef ekki þá vona ég að minnsta kosti til þess að tillagan verði hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum tilefni til að hugsa með hvaða hætti þeir gætu gert sitt til þess að bæta þennan heim sem stundum er kallaður táradalur og er það í tilviki allt of margra.

Þessi tillaga er einfaldlega til að undirstrika það að við stöndum ekki við samþykktir Alþingis. Hún er til að undirstrika það með táknrænum hætti að þeir sem flytja hana og pólitískir vandamenn þeirra hér í þessum sölum eru þeirrar skoðunar að það sé til skammar fyrir okkur Íslendinga, ríka þjóð, að gera ekki meira, að gera ekki a.m.k. jafn mikið og nágrannaþjóðirnar. (Forseti hringir.) Hvers vegna ekki?