144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að tillaga hans hér í dag og málflutningur að öðru leyti í þessum efnum er auðvitað til þess fallið að vekja okkur til umhugsunar um þau efni. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa af eljusemi haldið málefnum þróunarsamvinnu á lofti, m.a. á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem við eigum sæti. Ég held að aðkoma hans að því máli hafi orðið til þess að efla þær umræður sem hafa átt sér stað á þeim vettvangi. Hins vegar er auðvitað um að ræða, ef við horfum á breytingartillögurnar sem hann leggur fram, verulega fjármuni sem ekki er auðvelt að hreyfa til um kvöldmatarleyti á síðasta degi þingsins. Ég held að hv. þingmaður geri rétt með að líta svo á að tillagan og tillöguflutningurinn sé táknræn leið til þess að vekja athygli á málefni sem vissulega er verðugt og þörf á fyrir okkur að taka til verulegrar umhugsunar.

Ég hlakka til þess þegar við fáum tækifæri til þess á vorþingi að fjalla um þau tvö þingmál sem hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað á þessu sviði. Þótt við kunnum að hafa ólíkar skoðanir á einstökum atriðum í þeim held ég að sá tillöguflutningur ráðherra, bæði hvað varðar þróunarsamvinnuáætlun og eins varðandi löggjöf um þróunarsamvinnu, muni verða til þess að við getum tekið þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar með það að markmiði að ýta þeim málum áfram sem lagt var upp með með þróunarsamvinnuáætluninni sem hv. þingmaður beitti sér fyrir þegar hann var í sæti hæstv. utanríkisráðherra.