144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka upp umræðuna um Ísland í tengslum við umheiminn, því að þó svo að það sé auðvitað mikilvægt og nauðsynlegt nú þegar við 3. umr. fjárlaga að við veltum því fyrir okkur hvaða áhrif þau hafa innan lands er engu að síður líka gríðarlega nauðsynlegt að líta á stöðu okkar og tengsl við umheiminn og það hvernig við ætlum að verja peningum okkar í málefni sem snúa að okkur út á við. Það er annars vegar í tengslum við Útlendingastofnun og það að fram hafi komið tillaga til þingsins um að þær 50 milljónir sem þar upp á vantaði hafi skilað sér.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að hingað á örugglega eftir að koma fleira flóttafólk. Það á eftir að mæða meira á Útlendingastofnun því að það er meira en 51 milljón manns á flótta í heiminum í dag og líklegt að eitthvað af þeim eigi eftir að koma til okkar.

Svo er það hins vegar Þróunarsamvinnustofnun og sú staðreynd að við verjum ansi litlum fjárhæðum þangað. Ég er meðflutningsmaður á þessari breytingartillögu um 500 milljónirnar sem við viljum veita þangað að auki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ummæli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan um þá ákvörðun að seinka framkvæmd á þróunarsamvinnuáætluninni og spyrja einfaldlega hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Ef það er ekki rétti tíminn núna til þess að (Forseti hringir.) setja aukið fjármagn í þetta, verður hann þá einhvern tímann?