144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við lokaumræðu, eða 3. umr., fjárlaga vil ég taka til máls og hnykkja á nokkrum atriðum; ég vitna til ræðu minnar við 2. umr. og í andsvör sem veitt hafa verið. Hér er 3. umr. að ljúka og senn göngum við til atkvæða um þetta 1. mál, mikilvægasta málið.

Ég hef hugsað mér að ræða eftir atvikum um fjögur atriði. Í fyrsta lagi eru það málefni Háskólans á Akureyri sem verið hafa til umræðu í dag. Í öðru lagi nefni ég málefni heilbrigðiskerfisins og alveg sérstaklega Landspítala – háskólasjúkrahús og byggingar þar. Í þriðja lagi ætla ég að ræða vegagerð og reyna að opna augu meiri hluta ríkisstjórnarinnar og þeirra sem styðja hann fyrir því að á næsta ári verður slegið Íslandsmet í vegagerð, þ.e. í því að gera ekki neitt. Ef ég kemst í það í lokin ætla ég í fjórða lagi að ræða aðeins um málefni Isavia sem komið hafa á dagskrá.

Fyrst að því sem snýr að Háskólanum á Akureyri og þarf ég í sjálfu sér ekki að lengja þá umræðu hér. Ég vil þó nefna það ágreiningsatriði hve fjárveitingar til Háskólans á Akureyri eru lágar miðað við að um er að ræða þriðja stærsti háskóli landsins sem er í fararbroddi við fjarnám í háskólakennslu. Eins og kemur fram í nýlegri ályktun háskólaráðs Háskólans á Akureyri, vegna fjárveitinga til háskólastigsins, er háskólinn með rúmlega hundruð nemendaígildi umfram fjárveitingar. Háskólinn á Akureyri hefur staðið sig mjög vel á erfiðleikaárunum frá 2008 við að uppfylla allar opinberar gæðakröfur, sýnt mikla ráðdeild í rekstri og greitt upp að fullu hallarekstur fyrri ára. Það á að launa Háskólanum á Akureyri það með því að setja enn einu sinni á síðustu mínútunum 30 millj. kr. framlag, sem átti að vera komið inn en kom fyrst inn í tíð síðustu ríkisstjórnar, til að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara; þetta gerðist vegna fjárlagagerðar 2013 í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Við síðustu fjárlagagerð um þetta leyti fyrir ári féll það niður á einhvern óskiljanlegan hátt og læðist að manni sú hugmynd að það hafi ekkert verið óvart heldur kannski ásetningur hjá meiri hluta fjárlaganefndar sem lagði það til. Þetta segi ég eftir að hafa skoðað hvernig fara á með þetta núna, breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr., þar sem enn einu sinni var gerð tillaga um þessar 30 millj. kr. á síðustu stundu, ekki verðbættar og ekki hækkaðar. Það sem þar kom inn í sem mikill ágreiningur er um — ég krefst þess eiginlega af formanni fjárlaganefndar og meiri hlutanum að það verði lagfært — er sá skýringartexti í gögnum fjárlaganefndar um hvernig ráðstafa eigi þessum 30 millj. kr. Þar er sagt að 20 millj. kr. framlagið verði til eflingar kennslu í heimskautsrétti og 10 millj. kr. eigi að fara í að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara.

Hér hefur verið sagt, meðal annars af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þetta sé brot á lögum um háskóla og undir það hafa margir fleiri tekið. Það er ekki svo að meiri hluti fjárlaganefndar og þá stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eigi að skipta sér af því hvernig þessum fjármunum er varið, eigi að skipta sér af skólastefnu Háskólans á Akureyri. Það er algerlega ólíðandi og þess vegna krefjumst við þess að þetta verði leiðrétt þannig að þetta verði ekki lögskýringargagn hvað það varðar.

Ég vil ekki trúa öðru en því að skynsemisfólk, sem margt er innan stjórnarliðsins, hjálpi okkur við að fá þessu breytt svo að hér komi inn annar texti. Ég ætla að vona að sú verði raunin eftir að það fólk hefur hlustað á málflutning okkar sem berum hag Háskólans á Akureyri fyrir brjósti. Ég ætla reyndar að vona að allir þingmenn geri það en nefni sérstaklega þingmenn Norðausturkjördæmis sem eiga að þekkja það mál mjög vel eftir að hafa fundað með yfirstjórn háskólans í kjördæmaviku sem er jú til þess að fræðast um starfsemi og fara í gegnum þessa þætti.

Nú er það svo að ef Háskólinn á Akureyri vill taka upp árlega kennslu í heimskautsrétti þá er það bara sjálfsagt mál en skólinn á að taka þá ákvörðun. Þá á auðvitað, vegna þess að hér hefur verið sagt að menn séu að gefa í og efla háskóla, að fylgja fjármagn með því en ekki taka það af rannsóknarpeningum sem hér eru.

Í mínum huga er þetta þannig að ef þessi tillaga verður samþykkt, þessar 30 millj. kr. með þessum lögskýringartexta, getur ekkert annað gerst hjá yfirvöldum Háskólans á Akureyri í framhaldi af því en að samningum um rannsóknarmissiri verði að segja upp. Háskólinn hefur ekki nema 10 millj. kr. á næsta ári til að standa undir því sem kostar 30 millj. kr. á þessu ári og kostaði 30 millj. kr. árið 2013.

Hitt atriðið, sem ég ætla ekki að eyða mjög miklum tíma í en hef nefnt það áður, er að það er með öllum óskiljanlegt hvernig þriðja stærsta háskóla landsins eru skaffaðar 10,3 millj. kr. af þeim 617 millj. kr. sem fara í hækkun framlaga til kennslu í háskólum landsins. Háskóli Íslands fær 298 millj. kr. og Háskólinn í Reykjavík 257 millj. kr., Landbúnaðarháskólinn 17,9 millj. kr., Háskólinn á Hólum 14,5 millj. kr., Bifröst er nánast ekki með neitt en Háskólinn á Akureyri fær 10,3 millj. kr. Ég ítreka enn einu sinni að Háskólinn á Akureyri er í fararbroddi hvað varðar fjarkennslu á háskólastigi og er með hundrað nemendaígildi umfram fjárveitingar. Það er því ósköp skiljanlegt að í bréfi rektors, sem hann hefur sent þingmönnum kjördæmisins, gagnrýnir hann mjög þessi vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndar, lýsir vonbrigðum yfir skilningsleysi og segir að þessi texti hafi aldrei verið borinn undir rektor skólans sem á að sjálfsögðu að fara með yfirstjórn og ráðstafa fjármunum.

Þetta vildi ég segja um Háskólann á Akureyri. Ég trúi því og treysti, miðað við ályktanir frá háskólaráði og bréf rektors, að skynsemin verði ofan á og þetta verði leiðrétt áður en við göngum til atkvæða. Annað er óásættanlegt. Ég vil trúa því að menn reyni að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þetta geti gengið, líka til að liðka fyrir þingstörfum þannig að þessari umræðu fari að ljúka og við göngum til atkvæða.

Ég ætla líka enn einu sinni að ræða málefni heilbrigðiskerfisins. Ég vil sérstaklega ræða um þá tillögu sem minni hlutinn á Alþingi flutti í gær um að viðhalda hinum svokallaða sykurskatti áfram sem er upp á rúma 3 milljarða kr. og nota þá á ákveðinn hátt í heilbrigðismálum eins og fjallað er um í breytingartillögu á þskj. 757 frá fulltrúum minni hlutans sem setja það fram hvernig útdeila eigi þessum peningum.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er meðal annars sett fram vegna þess að þingmenn í stjórnarmeirihlutanum hafa nefnt þann möguleika að eyrnamerkja sykurskattinn, sem á að koma í veg fyrir sykurnotkun og minnka, til heilbrigðismála. Í þessari tillögu er talað um að 1.350 millj. kr., rúmum 1,3 milljörðum kr., verði varið til Landspítalans og hér hefur komið fram að það sé meðal annars gert til að auðvelda Landspítalanum rekstur á næsta ári vegna kjarasamnings og hækkunar launataxta hjá læknum.

Þarna eru líka settar inn 455 millj. kr. til að auka viðhald á Landspítalanum og ekki er vanþörf á. Þarna má líka sjá 500 millj. kr. til geðheilbrigðismála, 100 millj. kr. til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sjúkrahúsið á Akureyri fær 200 millj. kr., S-merkt lyf 145 millj. kr. og almennt fara á heilbrigðisstofnanir 250 millj. kr. Svo má líta á að þetta sé síðasta tilraun okkar í minni hlutanum til að koma með tillögu um að komið verði til móts við fjárhagsvanda og taka á ástandinu sem er í landinu í dag, þ.e. þeirri vá sem er í heilbrigðismálum vegna læknaverkfalls og ýmiss konar reksturs á Landspítalanum.

Það voru því mikil vonbrigði, hvort sem það var í gær eða morgun sem samþykktin var gerð um virðisaukafrumvarpið og annað sem tilheyrði fjárlögum, að stjórnarmeirihlutinn felldi þá tillögu að viðhalda sykurskattinum. Þetta var okkar tillaga til frekari sátta um heilbrigðismál og ég ítreka það sem ég sagði áðan að í hinni grafalvarlegu læknadeilu veitir ekki af að senda spítalanum skilaboð um það héðan frá Alþingi, frá fjárveitingavaldinu, að við vitum að þegar samningar nást, sem verður vonandi sem fyrst, þarf spítalinn að fá aukið fé til að standa undir þeim kostnaði. Ekki gengur að hafa það þannig að allur þessi launakostnaður falli til og menn ætli svo að leiðrétta það í nóvember eða desember á næstu árum í fjáraukalögum. Það eru ekki boðleg skilaboð til stjórnenda Landspítalans og eiginlega vonlaust að hafa það þannig.

Að lokum vildi ég ræða örlítið um vegagerð eins og ég sagði áðan. Fjárveitingar til samgöngumála, og þá alveg sérstaklega til vegagerðar, eru lág tala ef horft er á bókhald Vegagerðarinnar, sem menn verða að fara í gegnum. Það er ekki nóg að horfa á fjárveitingatölur í fjárlögum eða samgönguáætlun, menn verða líka að horfa á það hver staðan er með verk sem eru í gangi. Vegagerðin fær ekki verðbætur á sitt en verðbætur greiðast á framkvæmdir. Allar líkur eru á því að til framkvæmda hjá Vegagerðinni á næsta ári verði eingöngu 270 millj. kr. Það er vegna þess að verk sem eru í gangi taka töluvert af þeim peningum sem eru á fjárlögum, eins og framkvæmdir við Álftanesveg, Suðurlandsveg, um Hellisheiði og framkvæmdir við Múlakvísl o.fl.; þarna er skuld og þarna þarf að færa á milli. Síðan er það þannig að inn á fjáraukann kom ekki nægjanlega há tala til að taka á vetrarþjónustulið og öðru og þó svo að örlitlu hafi verið bætt við við 2. umr., þessar 570 millj. kr., þá er þegar 300 millj. kr. skuld við þau verk sem eru í gangi sem fara þá af á þessu ári og þess vegna verða eingöngu 270 millj. kr. til næsta árs.

Samkvæmt samgönguáætlun átti að bjóða út verk eins og Arnarnesveg, Strandaveg, Jökulsá á Fjöllum, Dettifossveg, Berufjarðarbotn og Reykjaveg í Biskupstungum svo að dæmi séu tekin. Þessi verk eru öll á áætlunum og þetta eru áætlanir upp á 2 milljarða kr. í þessi sex verk á árinu 2015. En það verða rétt um 10% af þessari upphæð sem fara í þessi verk og þá geta menn rétt ímyndað sér hvort Vegagerðin geti boðið út eitthvað af þessum verkum miðað við þá fjárhagsstöðu. Nei, svo er því miður ekki.

Þess vegna segi ég: Stjórnarmeirihlutinn er hér að fara inn á algerlega nýjar slóðir og slær Íslandsmet í því að gera ekki neitt í vegamálum. Þannig er það nú, þetta er staðan. Það er ekki nóg að horfa á tillögur á blöðum, hvort sem er á fjárlögum eða í breytingartillögum fjárlaganefndar, eins og ég hef rætt um, heldur verða menn að horfa á reiknislega stöðu og fara yfir þetta þannig og það mun leiða til þessa. Ég trúi því ekki að menn ætli að sætta sig við það en verð sennilega að gera það vegna þess að í breytingartillögu hér við 3. umr. er ekkert um þetta.

Ég ætla þá að nota þetta tækifæri og minna þingmenn stjórnarmeirihlutans á að þegar þeir fara að gagnrýna það að Vegagerðin bjóði ekki út verk þá er það vegna starfa þeirra hér á Alþingi, þ.e. að láta fjárlög ekki fylgja því sem samþykkt er í samgönguáætlun. Þess vegna er staðan þessi og því miður verður að ræða það oft og títt eftir áramót á nýju ári í sambandi við þessi verk. Hvar eru þá skýringar og hugur sem fylgir hjá ýmsum stjórnarliðum hvað það varðar að skapa þurfi fleiri framkvæmdir í landinu, efla hagvöxt með framkvæmdum, sama hvort það er í innviðastyrkingu eða gagnvart því að búa til ný fyrirtæki sem framleiða nýja vöru til útflutnings? Allt er þetta mjög nauðsynlegt. Þarna verður algert frost á markaðinum.

Á þeim 30 sekúndum sem ég á eftir ætla ég að geta þess að ég er algerlega sammála þeirri leið sem hér er farin við að taka arð af Isavia, þessu fyrirtæki sem við eigum, 700 millj. kr. sem þar er tekið fram. 500 millj. kr. eiga að fara í framkvæmdir á flugvöllum víða á landsbyggðinni sem hafa því miður verið í fjársvelti undanfarin ár eða allt frá hruni. Ég fagna því alveg sérstaklega að í breytingartillögu eru 50 millj. kr. settar í flutning á veghratinu sem kemur úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Þetta er mál sem núverandi ríkisstjórn hefur haft á borði sínu í eitt og hálft ár en loksins sér fyrir endann á því, þar á meðal með heimild í 6. gr. fjárlaga. Því fagna ég mjög, virðulegi forseti.