144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður veltir fyrir sér hvort við höfum einhverja ástæðu í rauninni til að efast um að yfirstjórn skólans taki réttar ákvarðanir eða beri hagsmuni norðurslóðamála fyrir brjósti. En af því að ég er í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller verð ég aðeins að koma inn á Vegagerðina því að fáir vita meira um þann málaflokk en einmitt hv. þingmaður. Lítið fé er sett í nýframkvæmdir og skortur er á viðhaldi á vegum og víða er ástandið orðið slæmt. Ég velti fyrir mér, erum við komin á þann stað að við þurfum að vera opin fyrir því að hugsanlega fari einhverjar vegaframkvæmdir í einkaframkvæmd og að borga þurfi vegtolla til að komast áfram? Ég er hrædd um að annars þurfi að bíða í 80 ár þar til við verðum komin með vegakerfi eins og við vildum hafa það. Eða erum við ekki að forgangsraða rétt?