144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeirri mínútu sem ég hef ætla ég að skipta henni milli háskólans og Vegagerðarinnar. Nei, ég efast ekki eitt augnablik um færni og hæfni yfirvalda skólans á Akureyri við að ráðstafa þessu fé og treysti þeim fullkomlega og ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel að það sé rétta leiðin. Það hafa þau sýnt, eins og ég gat um áðan, hvernig þau hafa af ráðdeildarsemi náð niður hallarekstri og sýnt mikla ráðdeild og haldið uppi opinberum gæðakröfum, haldið 100 nemenda ígildum umfram fjárveitingar inni og fjarnámi og allt það.

Hitt snýr að Vegagerðinni. Ég held að það væri nægjanlegt til að byrja með að ríkissjóður væri ekki að taka 850 milljónir af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar inn í ríkissjóð, og ef til dæmis fjárveitingar samkvæmt samgönguáætlun hefðu komið inn mundi það bjarga miklu. Hér höfum við verið að stíga skref í að auka fjárveitingar til vetrarþjónustu, sem er mjög nauðsynlegt og er alltaf aukning á og gerð meiri og meiri krafa um, hálkueyðingu, snjómokstur o.s.frv. En hitt málið (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður nefndi um einkavæðingu eða aðra tekjustofna verður að bíða betri tíma og það getur verið eftir að kemur að samgönguáætlun.