144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni er varðar Vegagerðina og hef ég látið mig hana töluvert varða í fjárlaganefnd. Ég hef haft áhyggjur af þessari stöðu og því að svo virðist vera, og ég átti orðastað við fyrrverandi innanríkisráðherra um þessi mál, að ætlunin sé að láta Vegagerðina greiða upp þær fyrir fram mörkuðu tekjur, eins og það er orðað. Það sem við erum að horfast í augu við núna, eins og hv. þingmaður kom inn á, er að það verður lítið um nýframkvæmdir. Það er alveg ljóst.

Mér finnst svolítill misskilningur varðandi vetrarþjónustuna. Það er eins og hún felist einungis í því að moka snjó en sé ekki líka allar hálkuvarnirnar og annað því um líkt. Það eru gerðar auknar kröfur eftir því sem tímanum vindur fram, fólk vill komast á milli staða og atvinnusvæðin eru orðin stærri o.s.frv.

Hvað telur hv. þingmaður að vetrarþjónustan þurfi til að vera fullfjármögnuð? Hv. þingmaður kom inn á að það væru áætlaðir í kringum 2 milljarðar í útboði sem ekki væri hægt að fara í, þ.e. væru á áætlun, og mig langar að velta því upp hvað það þýðir í frestun framkvæmda ef ekki verður farið í þetta núna. Er ekki örugglega kostnaðarauki í því fólginn að geyma verkefni sem slík, svona stór verkefni?

Við sátum stuttan fund í hádeginu áðan um menningarsamninga, vaxtarsamninga og sóknaráætlanir. Telur hv. þingmaður að með því að gera þetta á þann hátt sem þessi ríkisstjórn virðist stefna í og halda áfram, fjármunir eru af skornum skammti, beri eitthvert þessara þriggja atriða, menningarsamningur, sóknaráætlun eða vaxtarsamningur, skarðan hlut frá borði í þessu samstarfi?