144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að lýsa yfir stuðningi við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðaust., fór fram á. Það er alveg rétt að við höfum 15 mínútur og svo höfum við 5 mínútur og ég t.d. saknaði þess mjög að formaður fjárlaganefndar og fleiri úr fjárlaganefnd, og sérstaklega úr stjórnarmeirihlutanum, væru ekki til að hlusta á ræðu mína áðan, vegna þess að í henni fór ég í gegnum þau atriði sem ég ræddi við 2. umr. og hvatti fjárlaganefnd til að skoða, m.a. málefni Háskólans á Akureyri, samgöngumál, vegagerð o.fl. Þessir hv. þingmenn gátu ekki verið viðstaddir þegar ég flutti ræðuna svo að ég breytti henni þannig að í stað þess að spyrja spurninga ræddi ég enn einu sinni efnislega um þessa málaflokka og benti á vankanta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hvet hæstv. forseta til þess að gera þær ráðstafanir sem þarf til þess að hægt sé að verða við óskum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að formaður fjárlaganefndar og menntamálaráðherra verði viðstaddir ræðu hans.