144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir mjög vel til vegamála sem fyrrverandi samgönguráðherra og áhugamaður um vegagerð til langs tíma hvernig málin voru hér á erfiðleikatímunum eftir að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók til starfa.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það að á þessum árum, 2008, 2009 og 2010, voru í kringum 82 milljarðar kr. veittir til stofnkostnaðar á verðlagi 2014. Hv. þingmaður deilir sömu áhyggjum og ég, við höfum sömu skoðanir hvað það varðar, en það er þannig að fjárveitingar sem verða lausar á næsta ári til þess að fara í framkvæmdir verða eingöngu um 270 millj. kr. Ég spyr vegna þess að hér er líka formaður umhverfis- og samgöngunefndar sem verður þá formaður umhverfis- og samgöngunefndar á þessu Íslandsmetsári þar sem ekkert verður gert í nýjum útboðum hjá Vegagerðinni. Er þetta virkilega ásættanlegt? (Gripið fram í.) Svarið er já, sennilega, hjá stjórnarmeirihlutanum, vegna þess að hér erum við við lokaumræðu, 3. umr., fjárlaga og það ber ekkert á neinum (Gripið fram í.) leiðréttingum sem þetta varða.

Virðulegi forseti. Ég spyr hv. þm. Steingrím J. Sigfússon vegna þess að við vorum að ræða um samgöngumál og í andsvörum við hann. Þau verk sem eru í gangi og verða í gangi á næsta ári og taka stóran hluta af því litla fé sem veitt er eru Norðfjarðargöng, Vestfjarðavegur, Álftanesvegur, breikkun á Hellisheiði og eitthvert fé fer þar fyrir utan í slitlög á tengivegum og smávegis í héraðsvegum. Það eru 570 milljónir sem eru eftir og 300 milljónir fara á þessu ári, þá eru 270 eftir. Í hvað stefnir, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) á fjölmörgum svæðum á landinu sem bíða eftir þeirri (Forseti hringir.) nútímabyggðastefnu sem við eigum að reka sem er styrking innviða með bættum samgöngum?