144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það stefnir einfaldlega í mjög dapurlegt ár. Auðvitað eru að baki erfið ár í þeim skilningi að ekki var hægt að halda uppi því framkvæmdastigi að fullu sem var í gangi þegar hrunið kom og fyrstu missirin þar á eftir. Þá var mjög mikið í pípunum og á árunum 2009 og 2010 voru mjög miklar nýframkvæmdir í gangi, en svo dró nokkuð úr þeim, það skal vissulega viðurkennt. En vonir manna voru auðvitað bundnar við það að þegar betur færi að ára í ríkisbúskapnum yrði bætt í, herra forseti, en það hefur því miður ekki gengið eftir.

Ríkisstjórnin hafði sjálf skilning á þessu þegar hún lagði fram samgönguáætlun sína í fyrra á útmánuðum þar sem auka átti framkvæmdastigið og bæta einum 3 milljörðum inn í framkvæmdafé Vegagerðarinnar. Síðan koma fjárlögin núna sem eru mikil vonbrigði þar sem þetta leiðir til þess, og af því menn neyðast að sjálfsögðu til að mæta útgjaldaþörfinni vegna vetrarþjónustu og viðhalds, að ekkert verður eftir til nýframkvæmda. Það eru vondar fréttir fyrir vegakerfið, það eru skelfilegar fréttir fyrir landsbyggðina, vondar fyrir þau byggðarlög sem bíða og hafa mátt bíða núna í nokkur missiri eins og t.d. í Berufirði og fyrir þá sem hafa bundið vonir við Dettifossveg.

Svo er ónefnt það sem er mjög alvarlegt að þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir mannvirkjagerð og verktakabransann í landinu sem nánast þornar upp við þessar aðstæður. Það er talsvert af minni verktökum enn þá þrátt fyrir allt vítt og breitt um landið sem hafa verið mjög háðir því að eitthvað væri um minni verkefni og þau væru í gangi. En það þornar allt upp með þessu áframhaldi og verður ákaflega dapurt á næsta ári.