144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf unun að hlusta á hv. þingmann þegar hún fjallar um samgöngumál. Engan hv. þingmann þekki ég sem er henni fremri um kunnáttu varðandi samgöngur, þá er ég kannski fyrst og fremst að tala um Vestfirði. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði um að það er ákaflega óþægilegt fyrir þann hluta landsmanna sem leggur stundum leið sína vestur í Dýrafjörð að göngunum hefur seinkað og eins og hv. þingmaður veit er ég einn af þeim. Sömuleiðis er það vonum seinna að menn eru loksins að gera bragarbót á þjóðvegi 60, en þar er samt ýmislegt á ferli sem þakka má hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hóf ákveðnar framkvæmdir eða lagði að þeim drög sem loksins er farið að sjá fyrir endann á.

Sem unnandi Vestfjarða og hinna smáu strjálbýlu byggða á Vestfjörðum þá saknaði ég þess auðvitað að hv. þingmaður sagði ekkert um Árneshrepp. Hún veit að það má ekki úr þessum stól tala, að minnsta kosti ekki af samherjum mínum, um samgöngur á Vestfjörðum án þess að menn ræði um Gjögur og Trékyllisvík og Árneshrepp. Þar er fámennasta byggð landsins og hún er, eins og ég hef stundum fært rök að, eiginlega hin afskekktasta, hún er afskekktari en Grímsey. Það skilur enginn nema sá sem þar hefur verið í kafaldsbyl og þurft fylgd snjómokstursplóga til þess að komast í burtu eftir að hafa verið lengi kaffærður inni, en það var skemmtileg dvöl í þau tvö skipti sem ég hef þar verið.

Hvað finnst hv. þingmanni um áherslurnar sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu um bættar samgöngur við smábyggðir sem eru afskekktar eins og þessa? Það þætti mér vænt um að heyra frá þingsystur minni sem ég veit að deilir áhuga mínum á þessu tiltekna máli.