144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið og get það svo sem ekki hafandi fimm mínútur. Mér skilst að mönnum liggi orðið mikið á heim. En ég vil loka þessu máli sem snýr að Háskólanum á Akureyri fyrir mitt leyti á þann veg að segja að ég er auðvitað ákaflega ósáttur við að þetta skuli ekki vera lagfært og ég er eiginlega meira undrandi að við skulum standa uppi með það á Alþingi að ekki sé hægt að lagfæra svo augljósan ágalla sem orðið hefur í vinnubrögðunum hér, þegar það blasir við að lögskýringin sem var með þessari tillögu við 2. umr. fjárlaga stenst ekki lög um háskóla, það stenst ekki að meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis, jafnvel bara einn maður í þeim meiri hluta, krefjist þess að fjárveiting til háskóla á Íslandi sé eyrnamerkt því að kenna tiltekinn áfanga í heimskautarétti. Af hverju ekki bara áfanga 1700 og súrkál í dönsku eða þennan eða hinn áfanga í sifjarétti? Bíddu, hversu langt ætla menn að ganga þá í því að fara að ákveða námsframboð og kennsluáfanga í háskólum með fyrirmælum í nefndarálitum á Alþingi þegar það stendur, herra forseti, í 7. gr. laga um háskóla svohljóðandi:

„Háskólar ákveða fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats. Háskólar ákveða hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs og undirflokka þeirra.“ — Punktur.

Getur þetta verið skýrara? Ég skil það ekki að menn skuli samt vilja láta þennan texta standa þarna sér til skammar, en það verður þá svo að vera, og í óþökk stjórnenda Háskólans á Akureyri sem hafa beðið um að þetta verði lagfært þannig að hendur háskólans séu ekki bundnar að þessu leyti. Ég hef gert hvað ég get, herra forseti, hefði gjarnan þegið liðsstyrk frá fleirum til að kippa þessu í liðinn en hann er ekki í boði. Mönnum liggur mikið á heim og góða nótt.