144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um fjárlagafrumvarp 2015 sem er annað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Samþykkt þess hafði í för með sér aukna greiðsluþátttöku heimila í heilbrigðisþjónustu, réttindi á skerðingu langtímaatvinnulausra, fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og hækka skatta á matvæli og bækur svo eitthvað sé nefnt.

Minni hlutinn var samtaka í því að gera breytingartillögur við 2. umr. til að sníða mestu ágallana af frumvarpinu. Stjórnarmeirihlutinn hélt samt sem áður fast við fyrri áform og tók ekki í útrétta sáttarhönd minni hlutans. Við viljum aftur leggja til breytingartillögur til að reyna að sníða ágallana af frumvarpinu. Við í Samfylkingunni munum síðan taka afstöðu til annarra breytingartillagna eftir því sem verkast vill en sitja hjá við frumvarpið í heild.