144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þá er komið að lokum þessa haustþings með hefðbundnu sniði þar sem við greiðum atkvæði um fjárlagafrumvarpið. Það er óhætt að segja að sú stefna sem hér birtist fari ekki endilega saman við stefnu okkar í Vinstri grænum, ekki að mjög miklu leyti. Hér er verið að veikja tekjustofna, það er ákveðin aðför að menntakerfinu, sérstaklega framhaldsskólunum sem veikir líka byggðir landsins og aðför að RÚV. Hér hefur átt sér stað alls konar flumbrugangur og ákvarðanir teknar án þess að stefnumótun og mörkun liggi fyrir í hinum ýmsu málaflokkum. Ég hef farið yfir það í ræðum mínum hvernig sá flumbrugangur hefur lýst sér, m.a. í því að hér var samþykkt við 2. umr. fjárframlag á milli sýslumannsembætta gegn því sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt.

Virðulegi forseti. Við munum sitja hjá við frumvarpið í heild sinni en að sjálfsögðu greiðum við atkvæði (Forseti hringir.) með sumum tillögum sem samrýmast okkar stefnu.