144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu er að setja fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi í hættu og það að óþörfu. Eins og frumvarpið stendur núna þegar við göngum til atkvæðagreiðslu eru fjárlögin í plús upp á 3,6 milljarða en það vantar enn þá 3 milljarða í heilbrigðiskerfið. Það er ekki hægt að segja að ríkisstjórnin sé með þessum fjárlögum að forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Það væri hægt að gera það. Þessir 3 milljarðar sem vantar er það sem forstöðumenn heilbrigðisstofnana um land allt hafa sagt að séu nauðsynlegir til að veita nauðsynlega þjónustu. Það vantar þetta upp á og það væri hægt að gera þetta. Það er síðasti séns í atkvæðagreiðslu um breytingartillögu sem ég hef lagt fram einn um þessa tölu, sem kemur óstrípuð frá forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana í landinu. Mönnum gefst tækifæri til að greiða atkvæði með henni og setja heilbrigðiskerfið í þann forgang sem það á að vera í þannig að við höldum okkar fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Að öðrum kosti verða menn bara að eiga það við sig og sína kjósendur. Við erum enn þá með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi með allt grænt. Eftir tvö ár þegar við þingmenn í þessum sal förum að undirbúa kosningabaráttu(Forseti hringir.) okkar þá um vorið skulum við horfa á það hvernig heilbrigðiskerfið stendur.