144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í umræðunni um fjárlög ársins 2015 kristallast að í pólitík greinir menn á um leiðir að markmiðum. Þetta frumvarp sem hér er afgreitt nú eftir 3. umr. er annað fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar sem lagt er fram og er hallalaust og um það hljóta allir að geta verið sammála að það er sú leið sem við eigum að fara þótt okkur greini á um margt annað í frumvarpinu.

Það er eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að skuldahlutfall fer lækkandi og því ber að fagna. Ég vil gera eins og aðrir og þakka fjárlaganefnd fyrir hennar verk og vinnu í þessu frumvarpi og ég ætla að segja, pínulítið stolt sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að ég fagna því að geta staðið hér og greitt atkvæði um hallalaus fjárlög öðru sinni.