144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um tillögu minni hlutans sem lögð var fram í gærkvöldi til að reyna að bjarga því klúðri sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur gefið sem skýringu á fjárveitingum til Háskólans á Akureyri sem við höfum aðeins rætt hér í kvöld.

Ég verð að segja eins og er að ég er mjög vonsvikinn með að meiri hlutinn innan meiri hlutans skuli ekki hafa komið vitinu fyrir minni hlutann í meiri hlutanum, sem mér sýnist bara vera einn maður plús kannski einn þingmaður úti í sal (Gripið fram í: Hver?) Það er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Ég held að þetta sé ekkert annað en meinbægni sem sett er fram á óskiljanlegan hátt í þessu máli sem við erum að greiða atkvæði um. Þess vegna var þessi tillaga lögð fram í von um að menn mundu átta sig á vitleysunni. Það er meira að segja verið að brjóta lög um háskóla; Alþingi Íslendinga, meiri hlutinn sem ætlar að samþykkja þessa aðferð er að segja háskólayfirvöldum á Akureyri fyrir verkum, hvernig eigi að reka skólann og hvað eigi að kenna. Þetta er alveg með ólíkindum, herra forseti.