144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að upplýsa þingheim um að við höfum komist að samkomulagi um að setja fjármuni í stafræna íslensku. Þetta er mikilvægt verkefni sem ég rakti ágætlega í ræðu minni í dag og tengist meðal annars því að þegar við tölum hér á Alþingi í gegnum míkrófóninn og það er tekið upp þá fer það beint á stafrænt form í stað þess að hér sitji ritari í marga daga við að skrifa upp þingræðurnar okkar. Þetta er mikil sparnaður fyrir þingið.

Þetta á líka við um það til dæmis að læknir geti átt samskipti við, ef við getum orðað það svo, myndgreiningartæki um myndir sem verið er að taka af sjúklingum. Það sparar líka heilmikinn tíma og kemur í veg fyrir alls konar mistök. Ég held að þetta sé afar góð tillaga og ég er þakklát fyrir að það náðist í hana fjármagn, við höfum talað svolítið fyrir henni í Vinstri grænum. Hér er líka um að ræða framlag til IMMI sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson geri betur grein fyrir á eftir.