144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til 180 millj. kr. framlag til að byggja viðlegukant við Helguvíkurhöfn og það er vegna þess að búið er að létta öllum fyrirvörum á kísilverinu sem á að rísa af iðnaðarsvæðinu við Helguvík og það þarf nauðsynlega að fara í þær framkvæmdir. Ríkið þarf að koma þar að og þetta þarf að gerast á árinu 2015. Það er ekki hægt að bíða eftir einhverjum sérlögum, það er fínt að fá þau um allt svæðið og ég fagna því að verið sé að vinna að því, en þessi viðlegukantur má ekki bíða. Ef það gerist mun það tefja atvinnuuppbyggingu í Helguvík og á Suðurnesjum. Ég vona að þingmenn sýni því skilning og að þarna verði jafnræði á milli iðnaðarsvæða og landsvæða og þeir greiði atkvæði með þessu framlagi.

Því miður sé ég að tillagan er felld og það hryggir mig.