144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hefur sjaldan verið jafn mikil ástæða til að óska fólki til hamingju með nýsamþykkt fjárlög og nú. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra, hv. fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, þingmönnum öllum og almenningi til hamingju með fjárlög ársins 2015. Þetta eru sannkölluð endurreisnarfjárlög. Tugum milljarða er skilað til heimilanna í landinu með fjárveitingum og lækkun skatta og gjalda. Kaupmáttur eykst og sérstaklega er hugað að stöðu lágtekju- og millitekjuhópa. Um leið eru innviðir samfélagsins styrktir, m.a. með verulega auknum framlögum til heilbrigðismála eftir gríðarlegan niðurskurð á síðasta kjörtímabili. Þannig hafa framlög til Landspítalans aldrei verið jafn mikil og nú og það sama á við um framlög til hinna ýmsu velferðarmála. Tekjustofnar hafa verið styrktir. Frumvarpið rennir enn frekari stoðum undir hagvöxt á nýju ári og verðlagsstöðugleiki er um leið varinn. Allt er þetta gert með hallalausum fjárlögum sem mun nánast vera einsdæmi í Evrópu — og samþykkt á 98 ára afmæli Framsóknarflokksins.