144. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2014.

jólakveðjur.

[22:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég þakka forseta Alþingis kærlega fyrir gott samstarf á haustþinginu. Fáir trúa því kannski en það er stundum sungið á fundum þingflokksformanna með forseta og oft hlegið dátt. Tíðarandinn dásamar það nýja, næsta, hærra, það stærra hlýtur að vera betra en það gamla og smærra. Blaðamenn vilja skrifa bækur, fréttamenn gera sjónvarpsþætti, fjallgöngumenn vilja á hærra fjall, þingmenn vilja verða ráðherrar. Sumpart er þetta heilbrigður metnaður en sjaldgæfara er og dýrmætara að vilja bara gera það vel sem maður gerir. Það ætti þannig að vera okkur metnaður sem hér störfum að vera góðir þingmenn. Það er mikilvægt að starfa á Alþingi. Ég þakka þess vegna forseta sérstaklega þá virðingu sem hann sýnir þessari stofnun þegar hann afþakkar vegtyllur í ríkisstjórn og gengur fram með fordæmi og sýnir að við getum ekki búist við því að þjóðin virði Alþingi ef við gerum það ekki sjálf.

Ég vona að framganga okkar í minni og meiri hlutanum á nýju ári eigi ekki eftir að verða til þess að forseti sjái eftir þessari ákvörðun sinni [Hlátur í þingsal.] en get auðvitað engu lofað. Ég þakka virðulegum forseta hlý orð í garð okkar alþingismanna og óska honum og fjölskyldu hans gleðiríkra jóla og farsældar á komandi ári. Ég þakka líka starfsfólki Alþingis alúðina við okkur alþingismenn á yfirstandandi ári. Ég óska starfsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og bið hv. alþingismenn að taka undir góðar óskir til forseta Alþingis, starfsfólks Alþingis og fjölskyldna þeirra með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Gleðileg jól.