144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

slit aðildarviðræðna við ESB.

[13:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla út af fyrir sig að fagna því að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki afdráttarlaus í yfirlýsingu um að tillaga sé á næsta leiti um að slíta viðræðunum. Hann er spekúlatífur í máli.

Ég ætla ekki að nota þennan tíma til að ræða kosti og galla aðildar. Það er stefna Bjartrar framtíðar að við eigum erindi í Evrópusambandið með góðum samningi. Við viljum ljúka viðræðunum og leyfa þjóðinni að taka afstöðu til samningsins.

Það stendur í stjórnarsáttmálanum að gert verði hlé á viðræðunum og þeim ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að það eigi að slíta viðræðunum. Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu ekki í kosningabaráttunni að þeir ætluðu að slíta viðræðunum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þess vegna ekkert umboð til að slíta viðræðunum og ef ríkisstjórnarflokkarnir ætla að slíta viðræðunum án þess að spyrja þjóðina verða þeir a.m.k. að sækja sér umboð til þess með alþingiskosningum. Það held ég að sé augljóst. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) sjái og viti að þetta mál mun skiljanlega mæta mikilli andstöðu ef það kemur inn í þingið. Það er vel hægt að finna uppbyggilegri lausnir.