144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

vernd tjáningarfrelsis.

[13:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýverið var gerð mannskæð árás á ritstjórn tímaritsins Charlie Hebdo í París og er talið að tilefni árásarinnar hafi meðal annars verið það að útgáfan hefði birt teikningar af Múhameð spámanni. „Assalamú ala kúllí nas.“

Nýlega á kirkjuþingi var samþykkt tillaga biskups Íslands um að lýsa yfir stuðningi við fram komið frumvarp á Alþingi um afnám fangelsisrefsingar fyrir tjáningu skoðana. Um er að ræða tvö frumvörp af okkar hálfu, annað sem afnemur fangelsisrefsingar við tjáningu ýmissa skoðana og hitt sem afnemur 125. gr. almennra hegningarlaga en hún leggur meðal annars fyrir að lögð skuli fangelsisrefsing við því að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags sem hér er á landi.

Í greinargerð með tillögunni sem biskup Íslands lagði til á umræddu kirkjuþingi kemur fram, með leyfi forseta:

„Biskup tekur undir þá skoðun Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútímaviðhorf til mannréttinda.“

Mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála pírötum og biskupi um það.