144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

vernd tjáningarfrelsis.

[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er væntanlega að tala um greinar sem eru hannaðar til þess að berjast gegn svokölluðum hatursáróðri, t.d. 233. gr. a almennra hegningarlaga, ef ég man rétt, en hér er fyrst og fremst um að ræða 125. gr. almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Frumvarp Pírata sem varðar þessa grein sérstaklega er með tvær greinar og þær eru svohljóðandi, virðulegi forseti:

1. gr. 125. gr. laganna fellur brott.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Þegar um er að ræða umgjörðina sem við setjum um hatursáróður er vissulega að mörgu að huga eins og hæstv. forsætisráðherra bendir réttilega á og það er mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu. Hér er hins vegar um að ræða grein sem varðar ekki hatursáróður heldur einfaldlega það að (Forseti hringir.) gera gys, einfaldlega það að gantast með trúarbrögð. Því leggjum við til að hún verði felld brott og ég spyr hæstv. forsætisráðherra, með þeim fyrirvara að hér skuli vera lög um hatursáróður, hvort hann sé þó ekki hlynntur því að það eigi að vera löglegt að gera grín.