144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

hagvöxtur.

[14:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fátt var meira rætt á síðasta kjörtímabili, í það minnsta af hálfu þáverandi stjórnarandstöðu, en um hagvöxt, þá um lítinn hagvöxt þeirra mati og nauðsyn þess að auka hagvöxt og verðmætasköpun í landinu. Iðulega voru nefndar tölur eins og 5–7%, að nauðsynlegt væri að árlegur hagvöxtur á Íslandi væri á bilinu 5–7%. Allt annað undir því var bara óásættanlegt. Undir lok kjörtímabilsins og reyndar megnið af kjörtímabilinu var talað um að hagvöxtur hér á landi væri svo lítill upp úr hruninu að nálgaðist frostmark og nauðsynlegt væri að koma hjólum atvinnulífsins og verðmætasköpuninni í gang að nýju.

En hvað gerist svo? Á fyrsta heila ári hægri stjórnarinnar, þ.e. 2014, þegar ríkisstjórnin vinnur eftir sínum fyrstu fjárlögum, mælist hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins 0,5%. Það er tíundi hluti af því og jafnvel minna sem þeir töldu sjálfir að væri nauðsynlegt á síðasta kjörtímabili, tíundi hlutinn af því. Og í sögulegu samhengi hefur ársbreyting á hagvexti milli þessara ára, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi 2013 til loka árs 2014, aldrei verið meiri ef hrunárið 2009 og fram á árið 2010 eru undanskilin. Þetta er mesta ársbreyting á hagvexti sem orðið hefur.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hefur hann dregið þann lærdóm af þessum tölum, niðurstöðu Hagstofu Íslands, að ríkisstjórninni hafi mistekist að koma vexti af stað í landinu og auka verðmætasköpun? Er ráðherrann sammála Hagstofunni og Seðlabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleirum um að viðvörunarbjöllur efnahagslífsins á Íslandi séu farnar að hringja og það ansi (Forseti hringir.) hvellt? Að lokum: Til hvaða ráðstafana (Forseti hringir.) hyggst ríkisstjórn hægri flokkanna grípa til að snúa þessari þróun við?