144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

háspennulögn yfir Sprengisand.

[14:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og byrja á því að óska henni velfarnaðar í starfi og fagna því í sjálfu sér að nú loksins sinnir einn ráðherra heill og óskiptur þessum mikilvæga málaflokki, umhverfis- og auðlindamálum.

Ég vil vísa til ummæla hæstv. ráðherra í Kastljóssþætti nýverið, sem ég vissulega fagna þar sem hæstv. ráðherra lýsti sig lítt hrifinn af framkvæmdum sem Vegagerðin og Landsnet fyrirhuga á miðhálendi Íslands, þ.e. háspennulínulögn og vegagerð yfir Sprengisand. Hæstv. ráðherra brást ítrekað við spurningum þáttarstjórnanda þannig að hún lýsti sig ekki hrifna af þeim framkvæmdum. Þar er ég hæstv. ráðherra sammála og fagna því. Ég vil fylgja því eftir með því að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá ekki eðlilegt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að Vegagerðin og Landsnet hverfi frá þessum áformum, kalli til baka drög að matsskýrslum, m.a. vegna þess að í ráðuneyti hæstv. ráðherra stendur yfir vinna að mótun nýs landsskipulags sem á að taka til miðhálendisins ekki síst?

Í öðru lagi með vísan til þess að á Alþingi eru til umfjöllunar frumvörp sem varða leikreglur á þessu sviði, þ.e. hvernig fara skuli með álitamál varðandi lagningu jarðstrengja eða háspennulína: Er ekki óeðlilegt að opinber og hálfopinber stofnun, eða fyrirtæki, standi í slíku, séu að reyna að knýja á um framkvæmdir eða undirbúning framkvæmda af þessu tagi akkúrat samtímis því að landsskipulagsstefna er í mótun sem á að leysa svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi og Alþingi er að fjalla um lagaumgjörðina sem á að notast við í sambandi við ákvarðanatöku um mál af þessu tagi, t.d. hvar raflínur eru leiddar í jörð og hvar háspennulínur eru? Er ekki ráðlegt að á eftir A komi B og hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þessi (Forseti hringir.) fyrirtæki hverfi frá áformum sínum?