144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 3. umr. frumvarp um breytingu á lögum um framhaldsskóla þar sem fjallað er sérstaklega um rafræn námsgögn. Málið hlaut ítarlega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og þar skilaði minni hlutinn séráliti, studdi 1. gr. frumvarpsins en hafði athugasemdir við aðrar.

Ég ætla aðeins að fylgja eftir þeirri skoðun sem ég hef á þessu máli í upphafi 3. umr. Ég tel að þarna sé verið að stíga afar óheppilegt spor varðandi námsgögn með því að setja í lög í fyrsta skipti heimild til að taka gjald af nemendum til greiðslu námsgagna. Ég geri mér alveg grein fyrir að nemendur borga fyrir námsgögn, þ.e. skaffa skólabækur sjálfir, en þó að ég hafi unnið að skólamálum á áratugi kom mér á óvart að í raunveruleikanum er hvergi lagaheimild fyrir því. Fulltrúar stéttarfélaganna vöktu athygli á því að í tillögu eins og hér er, um að bæta inn í 2. gr. framhaldsskólalaganna ákvæði um heimild til þess að hafa innritunargjald, nái sú heimild einnig til rafrænna gagna. Það er þá nýjung í lögunum.

Ég ætla aðeins að fara yfir tillögurnar í frumvarpinu í heild. Í 1. gr. er sú breyting að náms- og starfsráðgjöfum er veittur réttur til að sækja um launað námsorlof til samræmis við aðra, þ.e. kennara, skólameistara og faglega stjórnendur. Ég hef enga athugasemd við þessa breytingu. Þetta ákvæði kom í gegnum kjarasamninga og ég fagna því að núverandi meiri hluti og raunar þingið hafi samþykkt fjárveitingu til að mæta þessari breytingu. Ég get stutt hana heils hugar.

Hins vegar kemur í 2. gr. að mínu viti óskiljanlegt ákvæði inn í III. kafla framhaldsskólalaganna þar sem fjallað er um hvaða kröfur skuli gera varðandi viðurkenningu á einkaskólum, þ.e. þeim sem starfa sem sjálfseignarstofnanir, hlutafélög eða með öðru viðurkenndu rekstrarformi sem getur verið einkaeign á skólum. Þar er tekið út ákvæði, h-liður, sem fjallar um að meta skuli starfsaðstöðu, aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu við þá, og inn sett almennt ákvæði um að fara skuli eftir almennum lögum og reglum þar að lútandi. Mér er algjörlega óskiljanlegt að menn skuli kippa þessu ákvæði út nema á bak við það liggi að það eigi með einhverjum hætti að liðka fyrir að menn geti stofnað hér skóla án þess að gerðar séu faglegar kröfur af hálfu ráðuneytisins. Þessu er laumað inn í frumvarp sem fjallar fyrst og fremst um námsgögn.

Í 3. gr. frumvarpsins kemur svo breyting um starfstíma framhaldsskóla. Í framhaldsskólalögum er kveðið á um starfstíma og gert ráð fyrir því að lög ákveði hann. Ég geri mér grein fyrir að menn eru að semja um þetta í kjarasamningum og þá er ekkert eðlilegra en að það komi síðan fyrir þingið og menn reyni að staðfesta það með lögum, en hér er talað um að kippa þessu út úr lögunum og setja þessa reglugerðarheimild án þess að setja neinar forsendur eða neinn ramma um það hvernig taka eigi slíkar ákvarðanir. Þarna er að mínu mati önnur algjörlega óþörf breyting og komu meðal annars frá Félagi framhaldsskólakennara ábendingar um að þarna væru þingið og raunar stéttarfélögin að afsala sér réttinum til að fá að fjalla um þetta formlega í umsagnarferli. Reglugerðir geta farið í umsögn á netinu eða í gegnum ráðuneyti. Stundum er á bak við þær formlegt samráð en það eru engar reglur um það og það eru engin skilyrði hér um að það skuli fara fram með slíkum hætti. Þess vegna tel ég þetta fullkomlega óþarft ákvæði.

Í aðalákvæðinu, 4. gr. frumvarpsins, er mælt fyrir um að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Það liggur algjörlega ljóst fyrir af hálfu minni hlutans og af hálfu Samfylkingarinnar og þess sem hér stendur að það er gríðarlega mikilvægt að við eflum notkun á rafrænum námsgögnum í kennslu. Það sem ágreiningur er gerður um er að hér skuli vera komið í lagafrumvarp ákvæði sem gerir ráð fyrir því að kostnaðurinn af slíkri innleiðingu, þó að í tilraunaverkefni sé, verði fyrst og fremst borinn af nemendum. Ég hefði talið eðlilegast, ekki hvað síst vegna þeirra miklu breytinga sem eiga sér stað á menntakerfinu í augnablikinu og þeirra kjarasamninga sem voru samþykktir og eru núna að koma til framkvæmda, að menn tækju þennan þátt hreinlega inn og tryggðu fjármagn af hálfu ríkisins til að innleiða notkun á rafrænum námsgögnum. Það á að fjalla um kjarasamningana og greiða um þá atkvæði núna í byrjun febrúar. Það kom líka fram í umræðunni í nefndinni, og maður sér það þegar maður lítur á hversu takmarkað þetta frumvarp er, að það eru engar skilgreiningar á rafrænum námsgögnum. Það er skilningur sumra sem hafa beðið eftir þessu að þarna sé eingöngu verið að tala um heimild til að setja á netið ákveðnar námsbækur. En það komu spurningar eins og: Varðar þetta ýmislegt gagnvirkt efni? Eru glósubankarnir innifaldir í þessu? Eru vinnugögn frá kennurum hluti af námsgögnum, á að fara að borga fyrir þau? Verður búið til eitthvert kerfi í kringum þetta sem kostar þá að innleiða og borga nemendur það?

Það eru engar yfirlýsingar til af hálfu ráðuneytisins eða þeirra sem leggja fram þetta frumvarp um heildarkostnað, hvað þetta má vera hátt gjald, af hverju það sé tekið o.s.frv.

Þegar ég fór að skoða frumvarpið var ákveðið sjokk að sjá upplýsingar um að nú þegar borga nemendur að meðaltali 60–80 þús. kr. fyrir námsbækur á ári. Menn tala um 1,3–1,8 eða 1,9 milljarða og þá er hægt að segja: Skiptir miklu máli þó að einhverju sé bætt þar við?

Ég geri mér alveg grein fyrir því að til lengri tíma litið munu rafræn námsgögn geta sparað. En það er engin trygging fyrir því á þessu stigi, sérstaklega líka vegna þess að þarna verður um að ræða innleiðingarkostnað og það er ekkert sem segir að ekki megi taka þann kostnað af nemendum. Ég treysti á að stjórnarmeirihlutinn sem virðist ætla að bera þetta mál áfram og afgreiða það fylgist mjög náið með framkvæmdinni og tryggi að menn séu ekki að taka hér inn ný gjöld af nemendum og stofna til mikils kostnaðar á hlutum sem nemendur eiga ekki að greiða fyrir.

Í þessu samhengi er líka ástæða til að benda á að í 51. gr. framhaldsskólalaganna segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.“

Það skal viðurkennt að það hafa aldrei verið peningar lagðir í púkk varðandi þennan lið í framhaldsskólalögunum. En er ekki kominn tími til? Er ekki ástæða til að setja einmitt inn fjármagn undir þessum lið vegna þess að skilningur framhaldsskólalaganna, sem var samþykktur af flestum flokkum nýlega á þinginu, er að gjaldtaka af framhaldsskólanemendum eigi að vera hófleg? Raunar má skilja lögin þannig að framhaldsskólinn ætti að vera gjaldfrjáls fyrir nemendur. Það væri auðvitað verðugt skref fyrir okkar samfélag núna þegar betur árar að tryggja að námsgögn yrðu til dæmis ekki greidd til 18 ára aldurs sem er skilgreiningin á því hversu lengi maður er barn. Við hugsum þá þannig að framhaldsskólinn verði að minnsta kosti gjaldfrjáls til 18 ára aldurs í byrjun og getum svo stigið frekari skref síðar.

Við skulum líka horfa til þeirra markmiða sem sett eru í sambandi við framhaldsskólann, þ.e. að allir eigi að eiga jafnan rétt til framhaldsskólanáms óháð efnahag og búsetu. Hvernig harmónerar þetta við þá hugmyndafræði, við þau lög og það sem í raunveruleikanum er nú víðar bundið í lögum og réttindum? Þetta er ekki í samræmi við þau að mínu mati. Ég gagnrýni þessa lagasetningu mjög mikið, hún er fullkomlega óþörf. Það hefði verið auðvelt fyrir ráðuneytið með þau hundruð milljóna sem verið er að vinna þar með að leggja inn í þennan pakka 50–70 milljónir til að starta hér með myndarbrag innleiðingu á rafrænum gögnum án þess að nemendur þyrftu að borga sérstaklega fyrir. Gagnrýni okkar snýr fyrst og fremst að þessu og það má alls ekki blanda henni saman við það sem ég tók fram og er gríðarlega mikilvægt, að skipulögð verði vinna í samráði við skóla, útgefendur og námsgagnastofnanir við að innleiða hér notkun rafrænna gagna til að auka fjölbreytnina og framboðið og tryggja jafnt aðgengi fyrir sem flesta.

Ég ætla ekki að fara út í smærri atriði um útfærslu á þessu og gallana á því hvernig eigi að halda utan um þetta, hvernig eigi að rukka og hvað eigi að gera ef nemendur borga ekki. Eru þeir þá útilokaðir úr áföngum o.s.frv.? Allt þetta hefði maður viljað sjá í reglugerð áður en frumvarp um slíkt yrði samþykkt.

Þetta er nú 3. umr. og ef málið kemur ekki til atkvæðagreiðslu í dag verður það væntanlega á morgun. Ég tel útilokað að samþykkja þetta en vil jafnframt, eins og ég segi, tryggja að við vinnum að því sameiginlega að innleiða notkun rafrænna gagna í kennslu.