144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ágreiningurinn sem er uppi á milli mín og hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur er um það hvernig við eigum að fara af stað. Við eigum að fara af stað. Við eigum að gera tilraunir. Við eigum að ákveða hvernig við ætlum að hafa rafræn gögn í skólum, hvernig sé best um það búið. Mér finnst það ákveðið volæði eða vonleysi að segja: Við ráðum ekki við þetta nema nemendur borgi fyrir það. Það er það sem er verið að segja hér. Þar liggur ágreiningurinn. Ég segi nei, höldum okkur við það að við erum að innleiða nýja skólastefnu. Það er verið að búa betur um framhaldsskólann. Við þurfum að gera betur. Það er verið að gera kerfisbreytingar. Látum þetta vera hluta af því og fjármögnum það með sameiginlegum sjóðum. Síðan getum við búið um það til lengri tíma með fjárveitingum með 51. gr. eða eins og ég var að segja, mér finnst eðlilegt að við höfum gjaldfrjálsan skóla a.m.k. til 18 ára aldurs í byrjun. Þegar við erum farin að eiga svona mikinn pening, sem hægt er að sjá á eyðslunni í ýmislegt annað, hefði okkur ekki munað um 50 milljónir í þetta verkefni til að starta því myndarlega. Eða eru menn að tala um að vera með hærri upphæðir? Hvað er þá verið að láta hvern nemanda borga, ef það verða aðeins tveir, þrír skólar sem leggja af stað með tilraunaverkefni?

Ég held að þetta verkefni verði ekki unnið af einstökum skólum. Þetta verður líka unnið með útgáfunum sjálfum og ráðuneytinu. Það kann að vera að við getum náð því í gegn að ríkið leggi í þetta verulega fjármuni. Það er markmiðið með gagnrýni minni hér. Það á að hefja tilraunaverkefni, já. Ég held að það væri til dæmis ágætt ef talsmaður þessa máls við atkvæðagreiðsluna á morgun gæfi um það yfirlýsingu og gerði um það kröfu að áður en reglugerðin er gefin út verði hún kynnt fyrir Alþingi og rædd í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þannig að við hefðum eitthvað um málið að segja á því stigi líka og gætum fjallað um þá gagnrýni sem þarf að koma fram um framkvæmdina.