144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna. Við ræddum þetta efni ágætlega fyrir jól og ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafði fram að færa. Það sem ég vil nefna varðandi 1. gr., sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað fyrir jól í tengslum við þetta mál, að auknir fjármunir komu inn í námsorlofið af því að verið var að bæta náms- og starfsráðgjöfum þar inn, en ekki hafði verið gert ráð fyrir því þegar þetta var samið og var ekki í fjárlögum. Það var vel og gott að þeir aðilar hafa loksins fengið þar inni.

Við höfum rætt málið töluvert og ég get tekið undir það að ágreiningurinn snýst að mörgu leyti ekki um innihald, hvað varðar rafrænu námsgögnin, heldur frekar þann slaka sem er að finna í frumvarpinu. Það er ágætisgrein í Uppeldi og menntun eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur, þar sem komið er einmitt inn á margt af því sem við höfum verið að horfa á í mennta- og velferðarmálum hjá þeim flokkum sem nú ráða ríkjum. Ég ræddi töluvert í lokaumræðu fjárlagafrumvarpsins um þá hugmyndafræði sem við höfum kallað nýfrjálshyggju og með þessu má svo sem segja að við stefnum töluvert inn í þá hugmyndafræði. Hér er boðuð töluverð eftirgjöf eða slökun á reglum og öðru því um líku sem ríkisstofnanir þurfa ekki að búa við. Það er líka uppi mýta sem felst í því að það sé sjálfkrafa þannig að rafrænt námsefni auki fjölbreytni eða gæði, hver sem gefur það út. En það er auðvitað ekki neitt lögmál.

Það er svolítið merkilegt að það er eiginlega búið með lögum að skapa mismun gagnvart aðilum sem eru í slíkri framleiðslu, hvort sem þar er um að ræða ríkisstofnun eða einkaaðila. Óhætt er að segja að það felst ekki gagnsæi í því eftirliti sem við höfum með útgáfu námsefnis, eða öllu heldur höfum ekki. Það þekkjum við sem höfum starfað í skólum landsins, hvort sem það er í grunn- eða framhaldsskólum. Það eru ekki settar skorður við útgáfuna nema hjá opinberum aðilum og við höfum ekki annan aðila en Námsgagnastofnun. Gagnvart öðrum sem hafa verið að gefa út námsefni er ekki nógu mikið um rannsóknir eða markvissar athuganir sem fylgja því.

Í lögum um Námsgagnastofnun segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin ber ábyrgð á gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu námsgagna […] hefur með höndum þróun námsgagna og hefur frumkvæði að könnunum og rannsóknum á gerð þeirra og notkun […] Stofnunin skal hafa samráð við kennara og skóla og fylgjast með þróun og nýsköpun í námsgagnagerð fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.“

Þetta undirstrikar það sem ég var að segja, reglurnar ná bara yfir þessa stofnun en ekki einstaklinga eða einkafyrirtæki sem gefa út námsefni. Það er því ekki verið að tryggja gagnsæi eða annað því um líkt. Það eina sem finna má í lögum um námsgögnin og mat á þeim er í raun það að þegar búið er að gefa námsefnið út og ef einhverjum finnst það vafasamt er hægt að bera sig upp við menntamálaráðuneytið og gera athugasemdir. Það eru engar markvissar athuganir á því. Mér þykir þetta vera eitt af því sem sýnir, hafandi starfað innan skólakerfisins og án þess að vilja ýta út frumkvæði og sköpun, að lagaumgjörðin er ekki nógu sterk hvað það varðar að fylgja eftir þeim sem gefa út námsefni. Það er bara á ábyrgð útgefendanna með hvaða hætti lagt er mat á námsefnið, t.d. hvort það sé faglegt, lýðræðislegt eða hvað það nú er. Við sem hér sitjum og setjum lögin hugsum fyrst og fremst um okkar tilteknu stofnun, setjum henni skorður en ekki öðrum sem gefa út námsefni.

Það kemur meðal annars fram í þeirri grein sem ég nefndi að bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna að fyrirtæki sem framleiða námsefni hugsa fyrst og fremst út frá markaðshyggjunni og líka út frá markaðsvænum námsgreinum, skulum við segja, greinum sem allir nemendur þurfa að læra. Við sjáum það til dæmis á framhaldsskólastiginu að þar er námsgagnagerð mjög mikið sinnt af einstaklingum, kennurum eða fyrirtækjum, sem hafa gefið út stærðfræðibækur eða eitthvað slíkt. Svo eru það greinar sem eru fámennar eins og við þekkjum og það kom einmitt fram fyrir nefndinni að t.d. gæti verið hægt að byrja á námsefnisgerð fyrir gullsmíði en það er örugglega ekki sérlega arðbært og þá þurfum við að sjá til þess að slíkt námsefni verði framleitt.

Eins og hér var sagt áðan eru bókakaupin auðvitað enn þá allt of þungur baggi fyrir mjög marga og þá vil ég nefna spurninguna sem því tengist og var rædd hér síðast: Geta nemendur endurnýtt rafrænt námsefni eins og þeir geta endurnýtt annað námsefni, t.d. systkini? Þetta eru spurningar sem mér hefði fundist að við þyrftum að fá svör við af því að við vitum alveg að tregða hefur verið í þessari útgáfu. Nemendur hafa keypt mikið af eldri bókum jafnvel þótt lagt sé til að þeir kaupi nýrri bækur. Þeir hafa líka sleppt því að kaupa bækur. Geta nemendur sleppt því að vera skráðir í eitthvert rafrænt námsgagnakerfi í sínu fagi eða ekki? Það eru alls konar svona spurningar sem mér finnst ekki hafa verið svarað.

Ég held að við þurfum eiginlega fyrst og síðast að velta því fyrir okkur hvert við stefnum. Stefnum við í átt að markaðsvæðingu skólans í auknum mæli? Stefnum við að því að gjaldtakan verði enn þá meiri innan grunnskólans. Þar er auðvitað gjaldtaka að einhverju leyti. Þótt hún eigi ekki að vera, þá er hún þar, við vitum það. Ég hef áhyggjur af því. Við vitum, eins og hér kom líka fram áðan, að það var ekki búið að setja peninga í þennan sjóð. Það er kannski ástæða fyrir því eins og við vitum en þá finnst mér að við eigum ekki að fara þá leið að auka eða þyngja kostnað fyrir nemendur. Við þurfum að hafa einhverja sýn eða stefnumótun í þessum málum og mér finnst að hér sé á ferðinni hægri stefna sem byggir ekki á jafningjagrunni og tryggir ekki öllum jafnt aðgengi. Við getum ekki verið viss um að öllum sé tryggt jafnt aðgengi, það er ekkert hér sem styður að svo sé. Jafnt aðgengi er hluti af því sem ég hefði viljað sjá að við stefndum að en ekki frá, eins og mér finnst vera gert hér. Það er fyrst og fremst það sem ég hef gagnrýnt í umræðu um þetta mál.

Ég vil hins vegar auðvitað sjá aukna rafræna útgáfu. Eins og hefur komið fram áður í máli okkar sem um þetta höfum rætt þá erum við öll sammála um það. Við erum líka öll ósammála því að tilteknir nemendur í einhverjum óskilgreindum greinum sem ekki hefur verið ákveðið hverjar eiga að vera, borgi. Það er jú það sem segir í 4. gr., þetta er tilraun og bundin við tilteknar námsgreinar en ekki er útlistað hverjar þær greinar eru, í staðinn fyrir að þetta sé hluti af fjárveitingum. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á það áðan hvort ekki væri gott að við hefðum eitthvert verkefni til að miða við þegar hugsanlega yrðu lagðir fjármunir í þennan sjóð, en þá þurfum við líka að meta hvað eitt svona tilraunaverkefni kostar. Kostnaðurinn hlýtur að vera mismunandi eftir skólum, eftir fagi o.s.frv. Af hverju var ekki hægt að fara þá leið að semja við tiltekna skóla um að þeir fengju greitt fyrir að þróa námsefni undir faglegri stjórn? Hvað mælir gegn því að það sé gert? Mér finnst málið eiginlega snúast um það og að ekki eigi að ætla nemendum að taka þátt í einhverju tilraunaverkefni. Kannski mistekst það, ef við getum orðað það þannig, þ.e. námsefnið leiðir ekki til þess að það verði notað aftur. Kannski þróast það áfram, vonandi, en af hverju eiga nemendur sem eru misjafnlega staddir fjárhagslega, hafa mismunandi mikinn stuðning, að þurfa að taka þátt í því? Nægur er kostnaðurinn samt og við stöndum frammi fyrir því og vitum að þeir hafa stundum komist auðveldlega frá þeim kostnaði. Mér finnst, komandi frá skóla þar sem mikið var um upplýsingatækni og mikið byggt á rafrænu efni — en það er skortur á því, við tökum öll undir það — að þetta snúist um þá aðferðafræði og stefnu sem birtist í því að auka gjaldtöku, svolítið með markaðsvæðingarhugsun að leiðarljósi, og að einkaaðilar eða einstaklingar sjái væntanlega um að þróa námsefnið, óháð eftirliti því það er ekki skipulegt eftirlit með því. Það er ekki að sjá í þessu plaggi að eitthvert sérstakt eftirlit verði með því.

Ég held að við hefðum átt að fara hina leiðina sem við höfum rætt hér mikið. Ég trúi eiginlega ekki öðru en að það sé almennur vilji þingmanna sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd og hafa hlustað og lesið umsagnir og annað því um líkt og hafa talað fyrir hagsmunum heimila og að þeir sjái það sem sitt hlutverk að tryggja að ekki verði aukinn kostnaður fyrir þá sem stunda nám í framhaldsskóla.