144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir svörin. Mig langar að spyrja: Að hvaða leyti telur þingmaðurinn að einkaaðilar og opinberi markaðurinn sitji ekki við sama borð, eins og hún kom inn á í ræðu sinni, ef þetta frumvarp verður að lögum?

Með leyfi forseta langar mig að lesa upp úr greinargerð með frumvarpinu:

„Vandséð er að það náist öðruvísi en að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni sem þeim er gert að nýta í námi.“

Þetta er vandséð þegar verið er að ræða að ná heildarþátttöku nemenda í notkun á rafrænu námsefni. Þess vegna verða það alltaf skólarnir sem bera ábyrgð á tilraunaverkefninu og það verða alltaf skólarnir sem þarf að semja við um framkvæmdina, hvort sem það er einkaaðili, einstaklingur innan skólanna eða skólarnir sjálfir sem eiga námsefnið sem er verið að fara að nota.