144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við með mismuninum kemur fram í þeirri ágætu grein sem ég vitnaði til áðan, sem birtist í Uppeldi og menntun og heitir „Að tryggja framboð og fjölbreytileika“. Þar er ítarlega farið yfir að einkafyrirtækjum og öðrum eru ekki settar sömu skorður varðandi útgáfu námsefnis og þeirri einu opinberu stofnun sem við höfum, sem er Námsgagnastofnun. Það eina sem þeim er gert er að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna. Á meðan við sinnum eftirliti, þótt það megi vissulega vera meira og betra, þá gerum við það en hinir eru ekki undir það settir. Það er heldur ekki mat á námsgögnum, ekki einu sinni á skólavefnum. Það er ekki opinbert eftirlit með því sem þar er, þó að við hv. þingmaður vitum að það efni er mikið notað í grunnskólum landsins. Það er ekkert sem segir að það sé ekki allt ljómandi gott en ekkert opinbert eftirlit er með því. Mismunurinn felst í fyrsta lagi í því að einkaaðilum er ekki gert að uppfylla neinn sérstakan gátlista eins og opinberum stofnunum okkar, og ég segi aftur að það er ekki þar með sagt að stór hluti þeirra geri það ekki. En það vantar eftirlit.

Það sem ég hef verið að gagnrýna er að þótt skólar beri ábyrgð á framkvæmdinni eru það alltaf nemendur sem borga. Okkur greinir á um þetta, að nemendur þurfa að borga fyrir efnið í auknum mæli og sagt hefur verið að kostnaður framhaldsskólanema sé nægur.

Það kemur fram í frumvarpinu í 4. gr. að um umtalsverðan kostnað sé að ræða fyrir nemendur og að áætla megi að nemandi í fullu námi greiði 60–90 þús. kr. á skólaári fyrir námsefni sem gerir 1,3–1,9 milljarða (Forseti hringir.) á ári ef við miðum við 21.000 nemendur í fullu námi. Það er auðvitað meira en margur getur búið við.