144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er í voðalegu basli með þetta frumvarp og það hefur vafist mikið fyrir mér. Þannig er mál með vexti að frumvarpið inniheldur fleiri atriði en þau sem ég væri endilega til í að afgreiða í einu frumvarpi. Þá tala ég sérstaklega um 3. gr. og 4. gr. 4. gr. varðar rafrænt námsefni og gjaldtöku fyrir það en 3. gr. varðar setningu reglugerðar um starfstíma framhaldsskóla, sem að mínu viti er allt annað mál.

Ég hallast að því að vera hlynntur 4. gr. eftir mjög ítarlega þanka um efni hennar og eftir að hafa rætt við fjölda manns um hvaða áhrif hún gæti haft. En mér þykir enn þá óþægilegt að í frumvarpinu sé ekki hægt að afgreiða bara það eitt og sér heldur þurfi einnig að segja hér fyrir um reglugerðarheimild um starfstíma framhaldsskóla, eitthvað sem er skilgreint í lögum nú þegar, samanber minnihlutaálitið sem var gefið út eftir 1. umr.

Mig langar aðeins að fjalla um rafrænu námsgögnin. Ég held að allir hérna inni séu að sjálfsögðu hlynntir upptöku rafrænna námsgagna og mér þykir það meira að segja mjög brýnt, vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af framboði á íslensku námsefni. Ég er þeirrar skoðunar að íslensk tunga geti ekki keppt við erlent ókeypis rafrænt námsefni og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við finnum út úr því sem fyrst hvernig við getum haldið uppi námsgagnaframleiðslu á íslenskri tungu sem höfundar hagnist á eða í það minnsta hafi nóg fyrir sig, hafi í það minnsta laun af. Sú námsgagnaframleiðsla sem er hérlendis þarf að borga sig. Það er óháð spurningunni um það hvort nemendur eða ríkið greiðir.

Það er ákveðið ófremdarástand eins og er á skiptibókamarkaðnum. Höfundar missa tekjur sínar vegna skiptibókamarkaðanna. Fólk getur í sjálfu sér rökrætt hvort það sé eðlilegt ástand eða ekki, það er alla vega þannig að sífellt koma út nýjar bækur sem eru ekki endilega með efnislegum breytingum heldur smávægilegum breytingum sem gerðar eru fyrst og fremst til þess að halda bókunum í sölu. Þetta er gert til þess að höfundar geti lifað af því að framleiða námsefni. Þetta hagnast ekki neinum nema skiptibókamörkuðunum. Þetta hagnast ekki nemendum, hagnast ekki höfundum og hvetur ekki til íslenskrar námsgagnaframleiðslu og því kalla ég þetta ófremdarástand.

Frumvarpið eða í það minnsta 4. gr. þess er gerð til þess að hægt sé að hefja tilraunir til að bæta úr þessu og er það vel. Ég tek undir það þótt aðferðin sé kannski ekki sú sem ég mundi helst vilja. Þá vík ég að 51. gr. laga um framhaldsskóla, sem að mínu mati þarf að virkja. Að mínu mati á ríkið að borga námsgögn almennt. Þó er staðan ekki þannig í dag þrátt fyrir að í 51. gr. laga um framhaldsskóla sé kveðið mjög skýrt á um að í fjárlögum ár hvert skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Vonandi er þetta tækifæri til að virkja þá lagagrein og ég skora á hv. fjárlaganefnd að taka það sérstaklega til umfjöllunar við afgreiðslu næstu fjárlaga. Það hefur verið helsta bitbein mitt gagnvart þessu frumvarpi, spurningin um það hver eigi að borga námsgögnin.

Að því sögðu er þetta einhvers konar tilraunaverkefni við kringumstæður þar sem nemendur borga nú þegar fyrir námsgögn, hvort sem manni líkar það betur eða verr og hvað svo sem lögin segja um það, þ.e. þrátt fyrir 51. gr. laga um framhaldsskóla. Enn þá stend ég því hérna hálfringlaður yfir því hvort ég eigi að greiða atkvæði með frumvarpinu í heild sinni eða ekki, vegna þess að jafnvel þótt ég sannfærist meira og meira um að það þurfi að gera þessa tilraun þá stendur eftir 3. gr., sem gefur ráðherra heimild til að gefa út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla, sem að mínu mati er ekki sama málið.

Ég kemst í raun og veru ekki að niðurstöðu í þessari þingræðu, því miður. Ég hallast að því að greiða atkvæði með því en er hreinlega ekki viss og legg til að í framtíðinni þá reynum við að aðskilja betur það sem við erum að tala um í hverju frumvarpi fyrir sig. Það er óþarfi að reyna að taka á tveimur, þremur vandamálum í einu frumvarpi. Mér finnst allt í lagi að við séum með tvö aðskilin mál þannig að það sé auðveldara að greiða einu atriði atkvæði og greiða atkvæði gegn öðru eða sitja hjá. Mér þykir það sjálfsagt.

Nefndarstörfin við umfjöllun þessa máls voru mjög áhugaverð. Og þetta er enn eitt málið sem ég tek þátt í að vinna á Alþingi þar sem ég hefði viljað óska þess að nefndarfundir væru opnir. Ég held að alþýða og kjósendur hefðu haft mjög gott af því að sjá og heyra það sem þar gekk á, sem var allt vitaskuld mjög vinsamlegt og fagmannlegt og einnig upplýsingaríkt. Á nefndarfundum kemur fram mikið af upplýsingum og miklar umræður eiga sér þar stað sem af einhverjum ástæðum fara ekki fram hér í pontu. Kannski er það vegna þess að hlutfall þingmanna úr hverjum flokki er meira eða minna tryggt. Þótt auðvitað sé alltaf eitthvað um forföll þá er vægi flokka meira og minna tryggt, nema auðvitað hjá okkur minnstu, okkur pírötum vegna þess að við erum þrír þingmenn í átta fastanefndum og getum einfaldlega ekki mætt á alla fundi. En á nefndarfundum eiga sér enn fremur stað samtöl Alþingis við aðra aðila. Þar eru ekki bara pólitíkusar að tala við pólitíkusa heldur stjórnmálamenn að tala við hagsmunaaðila úr öllum áttum, þar á meðal nemendur sjálfa og höfunda, í þessu tilfelli. Ég sakna þess að þau samtöl eigi sér stað milli alþingismanna og þjóðarinnar. Ég held að það væri mun auðveldara að tala um þetta mál ef sú umræða sem fór fram í nefndinni ætti sér stað hér eða í það minnsta fyrir opnum dyrum. Að því sögðu ætla ég að reyna að ákveða fyrir morgundaginn hvort ég greiði atkvæði með frumvarpinu eða ekki.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.