144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

greiðsludráttur í verslunarviðskiptum.

8. mál
[15:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu við ágæta framsöguræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar að bæta hvað varðar meðferðina á þessu máli. Það kom ágætlega fram í hans framsögu að nefndin lagði í þetta nokkra vinnu á síðasta þingi og það skilaði af sér betra frumvarpi þegar það var hér endurflutt. Þá hafði verið tekið tillit til flestra athugasemda nefndarinnar frá fyrra þingi sem fram komu í nefndaráliti og frumvarpið lagfært, orðalag gert skýrara á nokkrum stöðum þar sem það gat orkað tvímælis og jafnvel misskilist, svo sem eins og í þessu tilviki með greiðslufrestarammann, að þar væri ekki meiningin að teygja úr almenna 30 daga frestinum með möguleika til að framlengja hann í 60 daga þannig að það yrðu 90 dagar heldur skyldu 60 dagarnir vera viðmiðunin. Eins var með fjárhæðarviðmiðunina fyrir innheimtubæturnar, að tilgreina hana í íslenskum krónum, og skýrara orðalag hvað varðar innheimtubætur og innheimtukostnað. Þetta voru nokkur atriði sem betur máttu fara.

Ég stóð að því nefndaráliti með fyrirvara og sá fyrirvari hefur lifað inn á þetta nefndarálit þó að það skuli viðurkennt að að mestu leyti eru tilefnin farin fyrir borð, þ.e. þetta sneri meðal annars að hlutum sem við vorum ekki viss um á þeim tíma að væru nægjanlega vel unnir að þessu leyti. Ég tek þó fram að ég er að sjálfsögðu hlynntur málinu. Það er enginn vafi á því að það er til verulegra bóta að hafa lagaramma um greiðsludrætti og reyna að tryggja að þeir séu hóflegir og að þeim tengist sanngjörn kjör, ella er hætta á því við vissar aðstæður, kannski alltaf en sérstaklega við tilteknar aðstæður, að veikari aðilinn í slíkum viðskiptum dragi styttra stráið og kannski neyðist til að veita óhóflega langa greiðslufresti og annað í þeim dúr. Þetta er auðvitað vel þekkt, tengist öðru vandamáli sem er snúnara viðfangs af tvennu illu, sem er einfaldlega að þegar mjög ólíkir aðilar að stærð og aflsmunum takast á í viðskiptum þvingi menn niður verð og píni í krafti stærðar fram afslætti sem aðrir eiga ekki kost á. Þetta er hluti af sama máli, að það sé ríki sæmilega heilbrigðir viðskiptahættir hvað varðar endurgjald fyrir vöru eða þjónustu sem gengur á milli í viðskiptum. Hér er sérstaklega tekið til viðskipta við opinbera aðila svo sem eðlilegt má telja en gengið skemmra í því að grípa beinlínis inn í samningsfrelsi í viðskiptum milli einkaaðila.

Varðandi síðan það sem nefnt er sérstaklega í nefndarálitinu síðast og stendur eftir er mikilvægi þess að þetta sé lesið saman við þau ákvæði sem lúta að eignarréttarfyrirvörum og lögunum um samningsveð. Þá tek ég bara undir það sem þar er sagt, legg áherslu á og vona að það komist til skila að það þarf að líta yfir þann þátt málsins þó að hann sé verkefni annars ráðuneytis til að ná betur utan um þessi mál í heild sinni.

Í aðalatriðum erum við einfaldlega að innleiða evrópskar reglur og fylgja þróuninni í reglum á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Það er vísað til þess í greinargerð frumvarpsins að þrátt fyrir viðleitni á þessu sviði hafi athuganir sýnt það, mig minnir að það hafi verið eftir tíu ára líftíma eldri tilskipunar um greiðsludrætti, að þeir væru enn útbreitt „vandamál“ í viðskiptum í Evrópu. Þetta er að sjálfsögðu háð ýmsum umhverfisþáttum eins og því hvernig afkoma er í viðskiptalífinu, hversu virk samkeppni er á viðkomandi sviðum o.s.frv., en það ætti ekki síður að vera ástæða til að reyna að hafa svona regluverk vandað á Íslandi á litlum markaði þar sem oft eru fáir um hituna og stærðarmunur getur verið verulegur á litlum birgjum eða söluaðilum og stórum kaupendum.

Ég mun styðja frumvarpið, herra forseti, þrátt fyrir þann fyrirvara sem er tilgreindur í nefndarálitinu og hann er í sjálfu sér ekki mjög alvarlegs eðlis eftir þær breytingar til bóta sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.