144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögum um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi, frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðna A. Jóhannesson og Þórarin Svein Arnarson frá Orkustofnun og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Orkustofnun og Samtökum atvinnulífsins.

Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði fengin heimild til að stofna opinbert hlutafélag til að gæta hagsmuna íslenska ríkisins við þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi. Samkvæmt lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er ráðherra heimilt að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis, og skal hann þá beita sér fyrir stofnun hlutafélags með það að markmiði að gæta hagsmuna ríkisins vegna þátttöku þess. Frumvarp þetta er liður í undirbúningi fyrir stofnun slíks félags en sérstaklega er tekið fram í frumvarpinu að félaginu sé óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.

Um er að ræða heimildarlög og er ekki gert ráð fyrir að til stofnunar félags komi nema fyrir liggi ákvörðun um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisvinnslu samkvæmt lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að félagið geti ekki undirgengist lánaskuldbindingar eða aðrar fjárhagslegar ábyrgðir án samþykkis ráðherra. Meiri hlutinn bendir á að eðlilegt væri að ráðherra upplýsti þingið áður en samþykki er veitt ef um óvenju háar fjárhæðir er að ræða.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu, annars vegar þess efnis að orðalag 4. mgr. 3. gr. verði skýrara og hins vegar að lagfærðar verði tilvísanir til annarra laga í 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Breytingartillögurnar eru svo raktar hér. Í stað orðanna „þá starfsemi og þjónustu sem félagið mun sinna sem leyfishafi og um meðferð kostnaðar“ í 4. mgr. 3. gr. komi: og við þá starfsemi og þjónustu sem félagið mun sinna sem leyfishafi og hvernig farið verði með kostnað.“

Síðari málsliður 5. mgr. 4. gr. orðist svo: „Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. eða lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.“

Hv. þingmenn Haraldur Benediktsson og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi afgreiðslu málsins en undir meirihlutaálitið skrifar Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Björk Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson og Þorsteinn Sæmundsson.