144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér við 2. umr. breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, með síðari breytingum. Ég er á nefndarálitinu með fyrirvara og tel rétt að gera grein fyrir í hverju fyrirvari minn felst.

Embætti umboðsmanns skuldara var fyrst og síðast sett á til að styrkja einstaka skuldara í þeirra málum varðandi fjármálastofnanir og hugsanlega varðandi gjaldþrot og annað sem yfir skuldarann hefur dunið. En umboðsmanni skuldara, embætti hans, ber og að sinna fræðsluskyldu. Fyrir nefndinni kom fram að umboðsmaður skuldara telur sér ekki fært að sinna fræðsluskyldu embættisins nema fá þá heimild sem hér er verið að veita með þessum breytingum á lögum.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann skuldara getur umboðsmaður skuldara „krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds.“

Virðulegur forseti. Þetta er orðrétt upp úr athugasemdum við þetta lagafrumvarp. Ég tel að með þeirri heimild sem verið er að veita umboðsmanni skuldara, að geta kallað eftir nánast hvaða upplýsingum sem er frá stjórnvaldi til að geta sinnt í raun og veru fræðsluskyldu sinni, sé hér of langt gengið. Fyrsta og síðasta hlutverk umboðsmanns skuldara er að aðstoða einstaka skuldara til að hjálpa þeim áleiðis í þeim vanda sem þeir eru. Það þarf að vera með samþykki sérhvers skuldara að umboðsmaður geti kallað eftir upplýsingum sem snýr að einstaka skuldara.

Með þessu, virðulegur forseti, er verið að veita umboðsmanni skuldara heimild til þess að kalla eftir upplýsingum frá stjórnvöldum sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt.

Ég vísa aftur til þess að fyrst og síðast er verið að tala um fræðsluskylduhlutverk umboðsmanns þannig að hann geti leiðbeint, ekki bara tilteknum skuldara heldur skuldurum almennt hvaða leiðir séu þeim færar í þeim vanda sem þeir standa frammi fyrir.

Í nefndarálitinu stendur: „… er fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati hans eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.“

Fyrirvari minn beinist að þessum víðtæku heimildum umboðsmanns skuldara til að kalla eftir upplýsingum sem ég tel að umboðsmaður skuldara þurfi ekki á að halda til að geta sinnt fræðsluskylduhlutverki sínu né heldur og enn þá síður til að geta sinnt einstaka skuldurum í því krefjandi verkefni sem að umboðsmanni snýr gagnvart skuldurum.

Það er þó betrun á frumvarpinu í meðferð nefndarinnar og hún er sú að þegar umboðsmaður skuldara tekur þá ákvörðun að kalla eftir upplýsingum þurfi að fylgja með ákvörðuninni rökstuðningur. Það er vissulega til bóta, virðulegur forseti, og sömuleiðis getur þá sá sem upplýsingarnar á að veita fengið andmælarétt og hann hefur þá rökstuðninginn fyrir beiðninni og getur nýtt sér andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum áður en umboðsmaður skuldara ákveður að beita fyrirtækið, fjármálastofnun eða stjórnvald dagsektum fyrir að neita að veita þær umbeðnu upplýsingar sem umboðsmaður skuldara óskar eftir. Þetta er betrun á frumvarpinu. Því skrifaði ég undir nefndarálitið með fyrirvara. En ég set enn og aftur þann fyrirvara að ég tel að umboðsmaður skuldara geti hæglega sinnt fræðsluskyldu sinni til skuldara almennt án þess að löggjafinn veiti slíkar heimildir sem hér er verið að veita.

Ég mun ekki standa í vegi fyrir frumvarpinu en ég er með fyrirvara vegna þess sem ég hef hér getið.