144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[17:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mun ekki lengja umræður um þetta mál og að sjálfsögðu ekki síður í ljósi þess að framsögumaður hefur þegar óskað eftir því að málið fari til nefndar aftur milli 2. og 3. umr., og sýnist nú þörf á því að sjálfsögðu að athuga að minnsta kosti gildistökuákvæðið. En það voru fleiri atriði sem leiddu til þess að ég kaus að vera á nefndarálitinu með fyrirvara þó að nefndin hafi unnið ágætlega að málinu og gert sitt besta til þess að hafa afgreiðslu þess skýra.

Ég átti í fyrsta lagi alllengi erfitt með að fallast á að það væri eðlilegt eða til bóta að fella brott tilvísun til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunar, m.a. vegna þess að í umsögnum um málið í fyrra lögðu tilteknir umsagnaraðilar sérstaka áherslu á að það væri mjög mikilvægt að festa í sessi þessar milliverðlagningarreglur. Það er að vísu tekið fram að þær verði áfram mikilvægt gagn til hliðsjónar og allt það þannig að í sjálfu sér þarf það ekki að breyta miklu.

Sömuleiðis varðaði það skjölunarskylduna og spurninguna um að gefa þar eftir, um tíma stóð til í nefndinni að fella hana í reynd alfarið niður gagnvart innlendum aðilum, en síðan var brugðið á það ráð að viðhafa þar fjárhæðarmörk. Þetta heyri ég nú að eigi aftur að taka til skoðunar, það séu einhver ný sjónarmið uppi í þessum efnum. Ég tel að við þurfum að hafa í huga að þó að að sjálfsögðu sé ástæðan til skjölunarskyldu og þess að hafa eftirlit með og tæki til að fylgjast með því að verðlagning sé eðlileg í viðskiptum stórra aðila milli landa, m.a. til að koma í veg fyrir skattundanskot eða eitthvað sem gæti leitt til þess að skattandlög, sem til féllu vegna viðskipta í einu landi, kæmu ekki endilega til sköttunar þar heldur annars staðar eða alls ekki. Sú hætta er að vísu ekki með sama hætti fyrir hendi þegar um innlenda aðila í viðskiptum, tengda aðila í viðskiptum innan lands, er að ræða en þó er það auðvitað þannig, og á það var svo bent að lokum í umsögn að ég hygg frá ríkisskattstjóra, að auðvitað getur þetta þýtt hliðrun á skattskyldu í tíma og jafnvel leitt til hluta sem ekki er ætlunin að eigi sér stað ef menn eru í einhverjum innbyrðis viðskiptum á kjörum eða með verðlagningu sem ekki er sú sem almennt gengur og gerist á markaði. Þar getur því verið ákveðinn freistnivandi uppi sem reglum af þessu tagi er meðal annars ætlað að taka til. Ég fæ ekki séð að stærstu innlendu samstæðunum eða samsteypunum sé vandara um en hliðstætt stórum fyrirtækjum erlendis að vera undir sömu reglu seldar að þessu leyti.

Meðal annars í ljósi þessa, frú forseti, að við fáum málið aftur til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og mér gefst þá kostur á því að taka þar þátt í skoðun málsins og eftir atvikum bíða þess hver niðurstaðan verður endanlega með þessa hluti, sem leiddu til þess að ég kaus að vera á nefndarálitinu með fyrirvara, sé ég ekki þörf á að ræða það lengur hér og geymi mér það þá þangað til málið kemur aftur til umræðu við 3. umr.