144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

sjúkratryggingar.

242. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (flóttamenn).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti. Sömuleiðis bárust umsagnir frá aðilum sem flestar voru jákvæðar.

Frumvarpinu er ætlað að samræma rétt allra þeirra sem hafa stöðu flóttamanns hér á landi til sjúkratrygginga almannatrygginga. Réttur þeirra sem fá stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð eða fjölskyldusameiningu verði því jafn rétti flóttamanna sem koma í boði stjórnvalda að þessu leyti.

Breytingartillaga er frá nefndinni til þess að jafna stöðu þeirra sem oft hafa verið nefndir kvótaflóttamenn, sem koma hingað í boði stjórnvalda, og svo þeirra flóttamanna sem koma hingað af öðrum ástæðum. Nefndin taldi ástæðu til að skoða betur stöðu þeirra sem koma hingað sem flóttamenn, eru hælisleitendur og eru flóttamenn af öðru tagi en svokallaðir kvótaflóttamenn. Leggur nefndin til breytingartillögu á 16. gr. laganna sem frumvarpið að öðru leyti tekur til.

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Flóttamenn sem stjórnvöld hafa veitt hæli og einstaklingar sem dveljast hér samkvæmt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum þessum að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða dveljist hér samkvæmt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.“

Þess vegna, virðulegur forseti, er svo önnur breytingartillaga:

„Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Flóttamenn og einstaklingar sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“

Nefndin leggur til að breytingartillagan verði samþykkt og þar með breyting á því frumvarpi sem um ræðir.

Undir nefndarálitið skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Þórunn Egilsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynjar Níelsson, Guðbjartur Hannesson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.