144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla líkt og þeir tveir hv. þingmenn sem hafa talað á undan mér að vera á svipuðum slóðum, þ.e. fjalla um misskiptingu auðs sem er eitt af stóru málum samtíðar okkar. Ef fram fer sem horfir sjáum við fram á vaxandi vandamál frekar en hitt. Málið snýst í stuttu máli um það að við höfum annars vegar fámennan hóp fólks sem á gríðarleg auðæfi og hins vegar hinn mikla manngrúa sem lifir við fátækt eða jafnvel örbirgð. En eins og bresku hjálparsamtökin Oxfam bentu á í fyrradag mun staðan að óbreyttu verða sú árið 2016 að ríkasta 1% jarðarbúa mun eiga stærra hlutfall auðæfa heimsins en hin 99%.

Misskipting auðs er ekki vandamál sem tilheyrir bara hinum fjarlægu útlöndum þó að hlutföllin milli þeirra ríku og fátæku séu sem betur fer ekki jafn afgerandi hjá okkur, a.m.k. ekki enn sem komið er. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér að misskiptingin hófst ekki með ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, hún hófst fyrr, misskiptingin á Íslandi má segja að hafi farið á skrið upp úr síðustu aldamótum þegar hugmyndafræði nýfrjálshyggju komst á flug. Þess vegna er mikil ástæða til að hafa áhyggjur því að þetta ástand, ef svo má kalla, verður einmitt ekki til af sjálfu sér, heldur snýst þetta um ákvörðunartöku stjórnmálamanna, þ.e. okkar.

Því miður höfum við fjárlög síðasta árs þar sem þessi nýfrjálshyggja er aftur komin á fullt skrið þar sem auðlegðarskattur (Forseti hringir.) var felldur niður. Fjármálaráðherra boðar að hann vilji (Forseti hringir.) stefna að enn frekari fækkun tekjuskattsþrepa. Hér er verið að stefna í það að auka á misskiptingu (Forseti hringir.) og bæta kjör hinna efnameiri.