144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli hv. þingmanna á afar þarfri og góðri blaðagrein eftir Semu Erlu Serdar sem birtist á vefnum í dag undir fyrirsögninni „Að ala á ótta“. Þar ræðir greinarhöfundur meðal annars hina pólitísku jarðskjálfta í Evrópu og setur einnig í íslenskt samhengi. Þar segir meðal annars:

„Flestir eiga þeir stjórnmálaflokkar og aðrir formlegir eða óformlegir hópar sem nú tröllríða hinum pólitíska vettvangi í Evrópu það sameiginlegt að ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð og andúð á því fjölmenningarsamfélagi sem hefur tekið yfir í flestum ríkjum Evrópu.“

Hér eru orð í tíma töluð. Þar er því einnig velt upp af hverju okkur stafi ógn í þessum efnum. Stafar okkur ógn af innflytjendum á Íslandi? Stafar okkur ógn af fjölbreytni og fjölmenningarsamfélagi eða ólíkum trúarbrögðum? Eða skyldi okkur stafa ógn af hinum sem ala á ótta, fordómum og fáfræði og skapa spennu í samfélaginu á þeim nótum? Það held ég að sé sönnu nær.

Við erum öll Íslendingar sem höfum valið að búa í þessu landi óháð því hvort við höfum flutt hingað nýlega, foreldrar okkar, afar eða ömmur gerðu það eða forfeður fyrir 1000–1100 árum. Það eru engin við og hin í þessari umræðu.

Ég held að það sé tímabært, því miður af meðal annars nýlegum og sorglegum tilefnum, að Alþingi sendi skýr skilaboð um að við ætlum ekki að líða umræðu eða framgöngu sem byggist á þessum forsendum. Við ætlum ekki að gera það, a.m.k. ekki baráttulaust, ekki sá sem hér stendur. Það er algerlega ömurlegt ef menn ætla að róa á þessi mið og gera út á andúð, fordóma og ótta í garð tiltekinna hópa í okkar samfélagi. Við erum öll eitt, Íslendingar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)