144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af samgöngumálum Vestmannaeyja. Landeyjahöfn hefur verið lokuð frá því í lok nóvember og Herjólfur hefur fellt niður margar ferðir til Þorlákshafnar. Þetta hefur gríðarleg áhrif á atvinnulífið í Vestmannaeyjum, svo ekki sé talað um íbúana, að Herjólfur sigli jafnvel ekki dag eftir dag. Framleiðslufyrirtækin sem stóla á að koma vöru sinni á markað á fastalandinu á hverjum degi sitja uppi með harðan skell. Þetta er alvarlegt mál. Það var samþykkt að Víkingur, sem er lítill ferjubátur, mundi sigla í Landeyjahöfn en hann hefur enga ferð farið vegna ástandsins í höfninni. Höfnin í Landeyjum er full af sandi.

Í upphaflegri áætlun við höfnina var gert ráð fyrir því að það þyrfti að dæla um það bil 30 þús. rúmmetrum af sandi úr höfninni á ári til að halda henni opinni. Í dag telja þeir sem þekkja til við höfnina að til að opna hana núna þurfi að dæla 60 þús. rúmmetrum, þ.e. tvöföldu því magni sem menn gerðu ráð fyrir að ætti að dæla á ári. Á rifinu fyrir utan höfnina sem hefur aldrei farið niður fyrir 5 metra er 4 metra dýpi núna og til að dýpka höfnina þarf að byrja á því að dýpka rifið. Það hefur aldrei þurft áður. Í hafnarmynninu er dýpið 1,9–2,6 metrar. Þarna á milli er nánast hægt að ganga þurrum fótum. Það skiptir ekki máli hvort við leigjum skip eða byggjum nýja ferju, það siglir ekkert skip í höfn fulla af sandi. Verkefni okkar er að láta laga þessa höfn til að koma henni í lag til að hún nýtist Vestmannaeyingum og þeim sem þangað vilja sækja, friðarhöfn allt árið sem er örugg og traust. En til þess þarf að skoða alla hönnun hafnarinnar upp á nýtt og hlusta á það sem reynslan hefur talað í þeim efnum.