144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ný upplýsingalög tóku gildi árið 2012. Lögin hafa það göfuga markmið að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu, m.a. í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, auka möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, tryggja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, tryggja möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og auka traust almennings á stjórnsýslunni. Ekki veitir af.

Þrátt fyrir að Ísland flokkist ofarlega í nýlegri skýrslu um opin gögn teljumst við ekki lengur meðal þeirra ríkja sem standa sig best allra. Ástæða þess að við skorum lágt í þessum flokki er sú að þrátt fyrir lögin okkar, stefnur og tækifæri hefur okkur ekki auðnast að koma þessu nægilega til framkvæmda. Þrátt fyrir ýmsar umbætur til hins betra í nýju upplýsingalögunum eru einnig gallar á þeim. Í 13. gr. þeirra segir að stjórnvöld skuli veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni o.fl. Þá skulu stjórnvöld vinna markvisst að því að gera gögn, gagnaskrár og málalista aðgengilega almenningi með rafrænum hætti.

Hér er ekki beinlínis fast að orði kveðið og mér þykir miður að svona veikt orðalag rati í lög sem sett eru á Alþingi. Hvers konar upplýsingarétt skapar þetta? Í ákvæðinu kemur einnig fram að ráðherra skuli veita Alþingi reglulega skýrslu um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um hvað áunnist hafi varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum.

Samkvæmt þingmálaskrá fyrir 144. þing stóð til að forsætisráðherra flytti téða skýrslu nú á vorþingi. Hins vegar segir í endurskoðaðri þingmálaskrá að ekki verði af því á þessu þingi. Það er mjög miður og ég skora á forseta að beina þeim tilmælum til forsætisráðherra að við fáum skýrslu um ástandið því að það er mjög bagalegt að við höfum hrunið um ein níu sæti meðal þjóða sem við viljum bera okkur saman við varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Upplýsingalögin eru gölluð (Forseti hringir.) og ég vil fá skýrslu um þetta hið fyrsta.