144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

framhaldsskólar.

214. mál
[15:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samfylkingin vill vekja athygli á því að hér er í fyrsta sinn verið að setja í lög heimild til innheimtu gjalda hjá nemendum fyrir námsgögn. Samfylkingin telur afar mikilvægt að stuðla að aukinni notkun rafrænna námsgagna í kennslu en er ósammála því að nemendur eigi einir að greiða fyrir þróun og innleiðingu slíks námsefnis. Það eru engar hugmyndir lagðar fram um upphæð gjaldtökunnar eða umfang og það vantaði skýrari línur um þetta. Samfylkingin telur að gjaldtökuheimild sem er verið að veita sé ekki í samræmi við grundvallarhugmyndina um jafnan rétt allra til náms óháð efnahag. Við munum sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins í heild þó að við gerum vissulega athugasemdir við þessa grein.