144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Menntamálastofnun, nýja stjórnsýslu- og þjónustustofnun á sviði menntamála. Stofnuninni er ætlað víðtækt hlutverk en það felst fyrst og fremst í því að stuðla að því að íslenskir nemendur fái notið bestu mögulegrar menntunar og styðja við aukin gæði og framfarir í menntamálum.

Á undanförnum árum hefur verið lagður grunnur að eflingu íslensks menntakerfis. Má í því samhengi nefna nýleg lög um öll skólastig, framhaldsfræðslu og menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, útgáfu nýrrar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og þá áherslu sem lögð hefur verið á að innleiða aðgerðir sem byggja á fyrirliggjandi stefnumörkun og er ætlað að efla íslenskt menntakerfi enn frekar.

Til að þau góðu áform sem lágu til grundvallar framansögðu nái fram að ganga er mikilvægt að hugað sé að skipulagningu og framkvæmd menntakerfisins í heild. Fram til þessa hefur ekki verið til staðar eiginleg stjórnsýslustofnun sem þjónar menntakerfinu. Stór hluti stjórnsýslu menntamála fer nú fram innan veggja mennta- og menningarmálaráðuneytis en eftir því sem viðfangsefnin verða flóknari og ábyrgð á framkvæmd dreifist á fleiri aðila er mikilvægt að samhæfing verði aukin sem og yfirsýn með upplýsingaöflun og mati.

Með frumvarpi þessu er leitast við að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála, gæðastarf og þjónustu við skólann. Fyrirhugað er að fela stofnuninni að sinna tilteknum verkefnum sem ráðuneytið sinnir nú, auk þess sem hún taki yfir verkefni sem nú eru á höndum Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar. Útfærslu þá sem mælt er fyrir um með þessu frumvarpi má rekja til mats sem fram fór innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins á fýsileika þess að setja á laggirnar stofnun á borð við Menntamálastofnun og vinnu starfshóps sem skipaður var í kjölfar þess. Fyrst fór fram greining á núverandi stofnanaskipulagi og þeim verkefnum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sinnir í dag samkvæmt lögum. Í kjölfarið voru skoðuð samlegðaráhrif verkefnanna sem sinnt er í þessum málaflokki og niðurstaðan varð sú að það kynni að hafa jákvæð áhrif, bæði faglega og rekstrarlega, að þessum verkefnum yrði sinnt innan einnar og sömu stofnunar. Í kjölfarið voru lögð drög að mögulegu verksviði nýrrar stofnunar, skoðaðar sambærilegar stofnanir í Svíþjóð og Noregi og lagðar fram fyrstu hugmyndir um framtíðarsýn fyrir nýja stofnun. Nágrannalöndin hafa í vaxandi mæli lagt áherslu á að nýta þekkingu og rannsóknir til að efla sín menntakerfi, þróa náms- og gæðamat og miðla námsgögnum í samræmi við nútímakröfur. Mikilvægt er að Íslendingar nýti reynslu annarra og þá kosti sem fyrir hendi eru hér á landi til að bæta opinbera þjónustu við nemendur og menntun.

Frumvarpið var samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frumvarpsdrög voru birt til kynningar og athugasemda á vef ráðuneytisins 13. október árið 2014, auk þess sem haldnir voru fundir með helstu hagsmunaaðilum. Við samningu frumvarpsins var áhersla lögð á að halda starfsfólki Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins upplýstu um gang mála. Haldinn var kynningarfundur um frumvarpsdrög, eins og þau lágu fyrir á haustdögum, með starfsfólki beggja stofnananna og leitast við að svara spurningum starfsfólks eins og kostur var. Jafnframt var haldinn fundur með trúnaðarmönnum og stéttarfélögum.

Frumvarpið mælir fyrir um að Menntamálastofnun verði skipaður forstjóri til 5 ára í senn. Honum er ætlað að setja á fót fagráð fyrir helstu verksvið stofnunarinnar sem eiga að vera forstjóra stofnunarinnar til ráðgjafar og aðstoðar eftir því sem ákveðið verður í birtum reglum. Fyrirhuguðu hlutverki Menntamálastofnunar má skipta í ráðgjafarhlutverk, mats- og eftirlitshlutverk og þjónustu- og framkvæmdahlutverk.

Ráðgjafarhlutverk Menntamálastofnunar er tvíþætt. Annars vegar er mælt fyrir um að stofnunin verði ráðherra til aðstoðar við undirbúning laga, reglugerða og aðalnámskráa á sviði menntamála. Er það liður í að efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins. Jafnframt er með þessu leitast við að nýta markvissar þá sérþekkingu sem verður til innan stofnunarinnar. Hins vegar er stofnuninni ætlað að veita stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar á sviði menntamála. Hér getur til dæmis átt við almenna upplýsingagjöf um menntamál og leiðbeiningar til skóla og annarra aðila um framkvæmd skólastarfs á grundvelli laga, reglugerða og aðalnámskráa. Mats- og eftirlitshlutverk Menntamálastofnunar felst meðal annars í að afla, greina og birta upplýsingar um menntamál. Eru Menntamálastofnun í frumvarpinu veittar víðtækar heimildir til að afla gagna frá skólum, sveitarfélögum og öðrum stofnunum. Mikilvægt er að Menntamálastofnun leggi áherslu á að miðla sem víðast upplýsingum sem hún býr yfir og nýta þekkingu starfsfólks sem hjá henni býr í þágu betra skólastarfs.

Menntamálastofnun á einnig að hafa eftirlit með og meta árangur af framkvæmd skólamála og bera saman við sett viðmið. Í því felst að annast framkvæmd samræmds námsmats og könnunarprófa sem kveðið er á um í lögum um grunnskóla og undirbúning og framkvæmd lögbundins ytra mats á skólum samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins. Menntamálastofnun er ætlað að fylgjast með og styðja við þróun og framfarir á málefnasviði sínu. Í þessu felst að afla upplýsinga um, leggja mat á og miðla niðurstöðum verkefna og aðgerða sem horfa til nýbreytni og framfara og hafa sýnt að stuðli að auknum árangri í skólastarfinu.

Framkvæmdahlutverk Menntamálastofnunar er fólgið í að stofnunin sjái til þess að nemendum í skyldunámi standi til boða vönduð og fjölbreytt námsgögn, eins og grunnskólalög kveða á um, en jafnframt á öðrum skólastigum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið með öðrum lögum. Þar að auki felst í framkvæmdahlutverki stofnunarinnar að sinna öðrum verkefnum sem henni eru eða verða falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra. Menntakerfið er háð sífelldum breytingum og því er æskilegt að ný stofnun geti tekið við ýmsum verkefnum á sviði menntamála hratt og vel án þess að það kalli á lagabreytingar. Undir þetta geta fallið ýmis verkefni sem ráðuneytið hefur hingað til sinnt eða hafa að nokkru leyti verið utan yfirstjórnar og almenns eftirlitshlutverks þess.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er enn fremur í einstökum ákvæðum kveðið á um söfnun og meðferð upplýsinga sem varða skólagöngu nemenda um heimild Menntamálastofnunar til að afla sér sértekna, um heimild ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd laganna og um sérstök heimildarákvæði. Efnislega fela síðasttöldu ákvæðin í sér heimildir handa stofnuninni til að semja við utanaðkomandi aðila um að sinna þjónustu á hliðstæðan hátt og Námsmatsstofnun hefur heimild til og að stofnuninni verði veittar hliðstæðar eftirlitsheimildir gagnvart skólum og aðrar sambærilegar eftirlitsstofnanir hafa samkvæmt lögum.

Þá er mælt fyrir um heimild stofnunarinnar til að leggja fyrir próf og kannanir fyrir nemendur og birta upplýsingar um niðurstöður þeirra eftir skólum, sveitarfélögum, landshlutum og öðrum breytum sem kunna að skýra niðurstöður. Enn fremur er mælt fyrir um heimild fyrir stofnunina til að setja og birta reglur um afhendingu námsgagna auk heimildar til að hafa námsgögn sem stofnunin dreifir til sölu á almennum markaði. Að lokum er, eins og í lögum um námsgögn, kveðið á um rétt hvers grunnskóla til að fá afhent námsgögn, sem ræðst af nemendafjölda og er stofnuninni heimilt að ívilna fámennum skólum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á öðrum lögum til að heimila ráðherra að fela Menntamálastofnun að annast framkvæmd ýmissa verkefna. Markmiðið er að ráðuneytið fái aukið svigrúm til að sinna því yfirstjórnunarhlutverki sem því er ætlað að sinna samkvæmt lögum, og til að sinna stefnumótun í samræmi við ákvæði sérlaga á sviði menntamála. Um er að ræða breytingar á skipulagi framkvæmdar en ekki á efnislegum atriðum.

Í tveimur bráðabirgðaákvæðum frumvarpsins er kveðið á um réttindi og skyldur starfsmanna sem verða við störf við lagaskil, en með ákvæðinu er m.a. kveðið á um að starfsfólki skuli boðið nýtt starf hjá Menntamálastofnun og þarf ekki að auglýsa þau störf eins og 7. gr. starfsmannalaga gerir ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Eins og ég vék að í upphafi er stofnuninni ætlað mikilvægt hlutverk í stuðningi við menntun og framþróun hennar hér á landi og ég vona að samstaða geti náðst þar um.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.