144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Hér er um að ræða sameiningu tveggja stofnana sem vissulega, eins og alltaf er þegar stofnanir eru sameinaðar, kallar fram umræðu. Það er eðlilegt þegar jafn rótgrónar stofnanir og hér um ræðir eru sameinaðar að ekki verði fullkomin sátt eða samkomulag í upphafi um það hvernig á skuli haldið. En ég vonast til þess að hér í þingsal náum við góðri sátt um meðferð þessa máls.

Ég er algjörlega sannfærður um að það er mjög til bóta fyrir menntakerfið að við búum til þessa stjórnsýslustofnun. Við höfum af því ágæta reynslu að gera slíkt í okkar stjórnkerfi, að það sé sérstök stjórnsýslustofnun á viðkomandi málasviði, en ráðuneytin séu þá meira að huga að stefnumótun. Vil ég þá nefna sérstaklega þær breytingar sem eru að verða á ríkisfjármálum og því fyrirkomulagi sem fram undan er, sem kallar á mun meiri getu ráðuneytanna til að móta stefnu til lengri tíma en verið hefur, sem síðan birtist í fjárlagafrumvörpum framtíðarinnar. Það er grundvallaratriði hér.

Hvað það varðar hvort Námsgagnastofnun sé einhvern veginn að færast undir Námsmatsstofnun þá er það ekki svo. En auðvitað viljum við meðal annars kanna hvernig námsgögn og námsmat spila saman og nýta þau sóknarfæri sem í því felast.

Hvað varðar samræmd próf vil ég minna hv. þingmann á að þau eru til staðar núna. Á mismunandi tímum eða á mismunandi árum í skólagöngu barna eru haldin samræmd könnunarpróf. Það er í þau próf sem hér hefur verið vísað.

Hvað varðar kostnað fyrir sveitarfélögin þá er þetta starfsemi sem er á vegum ríkisins.