144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég var aðeins að velta þessu fyrir mér. Hérna er verið að sameina tvær stofnanir, ég skil það mæta vel, Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun. Ég get líka alveg skilið það að þegar svona stofnanir eru sameinaðar þá séu ekki allir á eitt sáttir, það er nú eins og gengur og hlýtur að verða að takast á við það. Út af fyrir sig skilur maður það alveg bara um leið og það er sagt að hugsanlega gæti skapast eitthvert rekstrarlegt hagræði af því að sameina, væntanlega eitthvert faglegt hagræði líka og allt gott með það.

Það er eitt sem ég skil ekki alveg og mundi vilja biðja hæstv. ráðherra að útskýra aðeins nánar fyrir mér, af því að hann segir að þetta sé ný stjórnvaldsstofnun. Þetta er ekki bara sameining þessara tveggja stofnana. Það er eitthvað meira þarna á ferðinni. Það er kannski það sem mig langar að spyrja ráðherrann um, að hann útskýri fyrir mér hvað er þarna meira á ferðinni. Eins og ég skil það þá hlýtur að vera að verið sé að færa einhver verkefni sem núna eru í ráðuneytinu yfir í þessa stofnun. Hæstv. ráðherra segir já og það er til þess að ráðuneytið geti sinnt betur stefnumörkun og öðru og það er líka jákvætt. En fækkar þá í ráðuneytinu? Er þetta eitthvað þannig að þessi deild, skrifstofa eða hvað það heitir fari úr ráðuneytinu og þangað inn? Ef hann gæti aðeins útskýrt þetta nánar fyrir mér vegna þess að mér finnst það ekki alveg skýrt.