144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undirbúningur þessa máls hefur staðið yfir alllengi og ég tel að hann hafi verið mjög vandaður. Gefinn hefur verið góður tími til þessa og mjög hæfir starfsmenn fengnir til að leiða þá vinnu. Þannig að ég ætla að þær áætlanir sem fyrir liggja um það hvenær þessi stofnun tekur til starfa, ég tel að það eigi allt saman að vera gerlegt og sé raunhæft. Að sjálfsögðu mun síðan taka einhvern tíma að fullmóta stofnunina eðli málsins samkvæmt. Við vonumst til þess að það gangi sem hraðast fyrir sig en ég get auðvitað ekki sagt það með einhverri nákvæmni.

Hvað varðar verkefni ráðuneytisins hef ég áður lýst því að gera þarf ákveðnar breytingar. Ég vil beita mér fyrir því að auka vægi stefnumótunar og langtímahugsunar í menntamálum og þá í starfi ráðuneytisins. Ég veit að hv. þingmaður gjörþekkir þær breytingar sem nú er unnið að varðandi fjárlög og framlagningu þeirra hjá íslenska ríkinu og það hefur nokkuð að segja, þ.e. að krafan mun aukast á fagráðuneytin að leggja fram langtímaáætlanagerð á sínum málasviðum. Það skiptir miklu máli, þegar kemur að menntamálum, að langtímasýnin sé til staðar — að unnið sé eftir einhvers konar langtímaáætlun — studd gögnum og rannsóknum sem við ætlum að efla með tilkomu þessarar stofnunar.

Það er því eðlilegt að starfsemin í ráðuneytinu taki breytingum og lagt er upp með það að svo verði. Ég tel að það muni verða til styrkingar að þessi sérhæfða stofnun, sem hefur meðal annars þetta stjórnsýsluhlutverk, (Forseti hringir.) það sem hinar tvær stofnanirnar höfðu, taki það hlutverk yfir, en að ráðuneytið einbeiti sér betur að því sem ég hef áður rakið, þ.e. stefnumótuninni.