144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar og andsvörin. Varðandi áhyggjur hv. þingmannsins af valdaframsali verkefna vil ég nefna að hér er ekki endilega uppi sú staða að verið sé að taka verkefni eða vald umfram það sem kveðið er á um í lögum að heyri undir ráðherrann og ráðuneytið. Svo er það spurningin um hvar ráðherrann vill að verkið sé unnið, hvort það er unnið innan ráðuneytisins eða í þessari stofnun. Hér rekumst við þá aftur á umræðuna um stjórnina, þ.e. að með því að hafa ekki stjórn er verið að færa þessa stofnun nær ráðuneytinu, ef svo má að orði komast, en verið hefur en þær tvær stofnanir hafa verið sem nú er verið að sameina. Þegar horft er á 4. gr. eru talin upp meginverkefni og ef bæta á við einhverjum meginverkefnum sem eru sambærileg við það sem talið er upp í töluliðum a–g er eðlilegt að það fari í gegnum þingið.

Hvað varðar breytingar varðandi námsgögn og námsgagnaútgáfu vil ég vekja athygli hv. þingmanns á e-lið 4. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„[A]ð sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið …“

Með öðrum orðum er þar ekki sagt að stofnunin skuli ein framleiða slíkt efni. Þarna er bara sú skylda sett á stofnunina að hún skuli tryggja að þetta sé efni sé til staðar.

Hvað varðar áfrýjunarleiðirnar þá höfum við í þinginu fjallað um breytingar þar á vegna athugasemda sem umboðsmaður Alþingis hafði uppi um óskýr mörk á milli innanríkisráðuneytisins annars vegar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins hins vegar (Forseti hringir.) um kæruleiðir fyrir borgarana, þar sem m.a. er tekið á því. En það gefur að skilja að ef ágreiningur skapast um þær stjórnsýsluákvarðanir sem þessi stofnun tekur hlýtur að vera hægt að færa það upp til ráðherra til úrskurðar.