144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þætti nú heldur verra ef málið yrði til þess að lengja áfrýjunarferli það sem einstaklingar þurfa að sækja í málum sínum ef þeir fá ekki viðunandi þjónustu. Ég held að það sé mikilvægt að áfrýjunarleiðirnar séu sem skýrastar og að menn fái sem fyrst niðurstöðu í þær. Ef einhver leið er til þess að komast hjá því þá hvet ég ráðherrann og nefndina til þess að skoða það.

Varðandi námsgagnagerðina hlýt ég að spyrja: Hyggst ráðherrann draga úr framleiðslu á vegum sameinaðrar stofnunar á námsgögnum frá því sem verið hefur? Telur hann að námsgagnagerð sé betur komin í höndum einkaaðila eða hins opinbera, svo ég orði spurninguna skýrt?

Að lokum varðandi niðurlagningu starfanna. Hæstv. ráðherra vísaði til fordæmis varðandi sýslumenn á síðasta ári. Ég spyr: Er sátt um þá útfærslu við þau stéttarfélög sem í hlut eiga? Það er hið mikilvæga í aðdraganda málsins, að það sé góð samvinna við samtök starfsfólksins sem í hlut á og auðvitað starfsfólkið sjálft.