144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans fyrir málinu og fagna því að hann hyggist fara í heildarendurskoðun á lögunum. Og kannski eðlilegt að spyrja fyrst að því hvort það sé ekki einfaldlega rétt að taka á því atriði sem hér er drepið á í heildarlöggjöf sem lýtur að einkareknum skólum eða hvers vegna hann kýs að taka þetta í gegn hér sem sérstakt og sjálfstætt mál.

Ef ég hef skilið vandamálið rétt þá lýtur það meðal annars að sveitarfélögum þar sem aðeins einn grunnskóli er eða jafnvel ef þeir væru fleiri ef einkaaðili tæki að sér rekstur þeirra allra og þar með ættu íbúarnir í viðkomandi sveitarfélagi ekki annarra kosta völ en viðkomandi skóla, að þá sé óheimilt að taka af þeim skólagjöld. Ég held að það sé út af fyrir sig ekkert nema jákvætt að það sé alveg skýrt að óheimilt sé við slíkar aðstæður að taka skólagjöld. Það vakna þá spurningar um stöðu þeirra sem í slíku sveitarfélagi búa, vegna þess að nú er það kunnara en frá þurfi að segja að á Íslandi eigum við hefð fyrir því að ýmis lífsskoðunarfélög hafa tekið að sér rekstur bæði leikskóla og grunnskóla. Það hefur satt að segja í sumum nágrannalöndum okkar sem hafa kannski verið óheppnari með lífsskoðunarfélög en við valdið harðvítugum deilum, slíkur rekstur. Þá spyr maður: Erum við þá lagalega í þeirri stöðu að íbúar í einu sveitarfélagi ættu ekki annarra kosta völ en að sækja skólaþjónustu á vegum einkaaðila sem væri til dæmis einhvers konar lífsskoðunarfélag? Nú vil ég ekki gera upp á milli lífsskoðunarfélaga í þeim (Forseti hringir.) efnum, það gætu auðvitað verið lífsskoðunarfélög sem væru bara andstæð hluta íbúa í viðkomandi sveitarfélagi.