144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur farið í gegnum og kom fram í umræðunni snýst þetta frumvarp ekki um það hvort við ætlum að vera með einkarekna grunnskóla eða ekki, heldur um að ramma betur af þær heimildir sem eru í lögum. Hins vegar eru atriði sem ég mundi vilja fá að nefna og hef nefnt við hæstv. menntamálaráðherra og það væri áhugavert fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að skoða þau, hvort sem er í tengslum við þetta frumvarp eða aðra löggjöf sem snýr að þessu. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á getur verið óþægilegt fyrir fólk í sveitarfélagi að standa frammi fyrir því að aðeins einn skóli sé boði. Það hefur verið nefnt sérstaklega varðandi einkarekna skóla en ég held að það geti komið upp sambærilegar aðstæður þegar við erum að tala um opinbera skóla eða skólann sem rekinn er á vegum sveitarfélagsins. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að foreldri er ósátt við þá menntun eða námsstefnu sem er í boði þar.

Þá er valkostur sem hefur ekki verið þróaður á Íslandi, en maður hefur fylgst með áhugaverðri þróun til dæmis í Bandaríkjunum og jafnvel líka á meginlandi Evrópu, og það er að auka heimildir foreldra sjálfra til þess að kenna börnunum sínum. Að mínu mati þyrfti að ramma það mun betur af en að gefa bara frjálsa heimild til þess.

Ég tel að við þurfum að auka fjölbreytnina en að sama skapi er í mínum huga lykilatriði þegar kemur að einkareknum skólum að þeir fjármunir sem fara frá hinu opinbera í rekstur skólanna séu nýttir til þess að bæta og bjóða upp á sem besta kennslu fyrir börn. Við höfum dæmi þar sem hagnaðarsjónarmiðin, því miður, hafa orðið ofan á frekar en að horft væri til þess hvernig væri hægt að setja peninga sem mest í að bæta kennsluna. Það er eitthvað sem ég held að engum hugnist á Alþingi.